Úr hitabylgju í kuldakast

Fréttir af hitabylgjunni sem nú stendur yfir N- og Austanlands hafa farið frekar lágt, enda hefur hún verið frekar ræfilsleg til þessa en hæsti hiti dagsins mældist 23 gráður á Hallormsstað, en litlu lægri hámarkshiti eða 22,7 gráður mældist á Akureyri. Hitabylgjan er þó ekki yfirstaðin ennþá og spáir Blika t.a.m. 24 gráðum á Egiulsstöðum á morgun, fimmtudag og 22 gráðum á föstudag. Fróðlegt verður að sjá hversu hátt hámarksmælarnir fara á landinu á morgun.
En skjótt skipast veður í lofti. Spár gera ráð fyrir að vestanáttin með hlýja loftinu víki fyrir norðaustan átt með kólnandi veðri á laugardag. Á sunnudag og mánudag er svo spáð hita um og undir 5 gráðum á láglendi norðan- og austanlands. Kuldanum fylgja svo skúrir eða slydduél og jafnvel snjókoma til fjalla eins og spáin á Bliku fyrir Fjarðarheiði sýnir.
Íbúar á Akureyri og Egilsstöðum geta því óhræddir sett stuttbuxurnar í þvott á laugardag og dregið þykkari föt fram úr geymslunni. Spám ber ekki saman um það hversu langt fram í vikuna kuldakastið á að standa, en ætli flestir voni ekki að því ljúki fljótt og að hægt verði að nota stuttbuxurnar aftur von bráðar.