14.MAÍ: LÆGÐ MEÐ RIGNINGU
6 daga spá fyrir kjördag sveitarstjórnarkosninga gerir ráð fyrir allhvössum vindi með rigningun sunnan- og vestanlands þegar kemur fram á daginn.
Að lokinni fremur kaldri komandi viku er útlit fyrir að lægð fari fyrir vestan land á laugardag með hlýnandi veðri. Með skilum hennar hvessir og rignir. Aðeins spurning hvenær dagsins það gerist.
Spá ECMWF gerir ráð fyrir að það verði frekar í eftirmiðdaginn, en að veður haldist nokkuð gott norðan- og austanlands lengst af.
Spá GFS sem líkan Bliku tekur mið af reiknar með skilunum fyrr um daginn og þá með slyddu jafnvel í fyrstu. Báðar reikna með 8-15 m/s í um 3-6 klst á meðan skilin fara hjá.
Allar líkur eru því á hálfgerðu leiðinda kosningaveðri sunnan- og vestanlands, en skárra og jafnvel ágætasta veður verður norðan- og austanlands.
Veður hefur alltaf einhver áhrif á kjörsókn. Fyrir 4 árum, 2018 var kjórsóknin á landsvísu 67,6%. Þá var veður ekki ósvipað og nú er spáð, þá jafnvel verra ef eitthvað var. Ekki nema 48% þeirra sem voru á aldrinum 20-24 ára mættu á kjörstað. Hafði rok og rigning áhrif á lítinn vilja unga fólksins til að mæta á kjörstað eða voru kosningarnar einfaldlega bara óáhugaverðar?
Hér er tölfræði 2018 frá Hagstofunni: