15°C SUMARDAGINN FYRSTA ?
Það lítur út
fyrir einkar hlýtt veður nk. fimmtudag.
Hiti getur hæglega komist í 15 stig bæði á Akureyri og Reykjavík svo
dæmi séu tekin. Trausti Jónsson á
Veðurstofunni hefur tekið saman veður hitafar þennan tiltekna daga í þriðju
viku aprílmánaðar. Hæsti hiti sumardaginn
fyrsta í Reykjavík reynist verða 13,5°C árið 1998, en á Akureyri reyndar 19,8°C
1976. Ólíklega fer hitinn svo hátt nú,
en sumardagsmetið í Reykjavík gæti hæglega fallið. Ekki síður gamalt
aprílhitamet í Reykjavík.
Mesti mældi hiti er ekki nema 15,2°C frá því á stríðsárunum nánar
tiltekið 29.apríl 1942. Það
verður spennandi að fylgjast með þessu.
Lítum betur á málið. Þrýstispákort Bresku Veðurstofunnar gildir kl. 12 á morgun miðvikudag. Þá verða hitaskil á leið austur yfir landið. Með þeim rignir um víðast eitthvað (taumar af Sahara-ryki koma með rigningunni). Á eftir skilunum gerir austan golu og jafnvel blástur. Loftið er milt af uppruna og komið langt að. Ferilgreining reiknar uppruna alla leið frá A-Evrópu, Moldavíu og Úkraínu. Leið þess liggur um Pólland og S-Skandinavíu. Mögulega fylgir gusa af frjókornum úr þessari áttinni um þetta leyti ársins og daufur reykur frá landbúnaðareldum sem mjög eru tíðkaðir í þessum heimshluta í vetrarlok.
En aftur að spánni hér á fimmtudag. Í A-áttinni léttir til a.m.k. um tíma á eftir skilunum um mikinn hluta landsins (þoka verður líklega með austurströndinni). Hiti í 850 hPa fletinum verður +2 til 4 stig á fimmtudag ætti að gefa 7 til 9°C undir skýjuðum himni. Nái hins vegar að létta til fer hiti um miðjan daginn hæglega í 14 til 15 stigin eins og spár, bæði Bliku og Veðurstofunnar gera ráð fyrir um miðjan daginn. Stutt verður hins vegar í bakka (kuldaskil) í suðri og nær hann yfirhöndinni sunnanlands þegar líður á daginn ef af líkum lætur.