58 m/s Í MESTU HVIÐU

58 m/s Í MESTU HVIÐU

Hvergi er meira um hættulega sviptivinda hér á landi en við hæstu og bröttustu fjöllinn.  Annars vegar við Öræfajökul og hins vegar undir Eyjafjöllum.  Já þeir eru hættulegir og þess vegna verður að grípa til þess ráðs að loka þjóðveginum þegar aðstæður skapast, jafvel þó vegur sé auður.

Í NA-áttinni nú standa snarpir byljir niður fjallshlíðarnar.  Vindstyrkur í hæð ræður mestu ásamt vindáttinni.

Frá því um miðjan dag í gær hefur augnabliksvindur við Sandfell í Öræfum slegið tíu sinnum yfir 50 m/s (í raun oftar því aðeins er skráð mesta hviða á hverju 10 mín tímabili).  Mestur hefur styrkurinn orðið 58 m/s í Sandfelli.

Sjá má á spákorti Harmonie stóran gulbrúnan flekk og rauður í miðju. Nokkurnveginn á þessum slóðum má reikna með meðalvindi 30-40 m/s.  Eiginlega ekki hægt að tala um meðalvind, því fjallaköst standa af jöklinum allt niður á láglendið og á milli þeirra lægir um stund.  Aðeins einn mælir, en veður ekki síður vont við Freysnes og Svínafell.

Á Vegagerðarmælunum tveimur undir Eyjafjöllum hafa hviður farið í 50 m/s frá því í gær, meiri sviptivindar þó á Steinum en vestar við Hvamm, en þeiri eru fleiri staðirnir þar sem vindtrókarnir hafa staðið ofan af Eyjafjallajökil og Mýrdalsjökli og niður í byggðirnar.