AF HITABYLGJUM VÍÐA UM HEIM

AF HITABYLGJUM VÍÐA UM HEIM

Mætti í morgunútvarpið á Rás 1, 21. júní til að ræða um tíðar hitabylgjur á norðurhveli síðustu dagana. Inntakið ásamt skýringarmyndum fer hér á eftir:

XXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXX

Á sunnudag fór hitinn í  39,2°C í Cottbus í Þýskalandi, skammt norður af Berlín. Þykir mjög hátt  á þessum slóðum, en mesti hitinn í Evrópu stóð í um tvo daga.

Vestanvert Miðjarðarhafið er mjög heitt þessa dagana, 24-26°C mjög óvenjulegt þetta snemma sumars og 4-6 stigum hærra en að jafnaði.  Á sinn þátt í því að hiti á Mallorka fór víst í 37°C um helgina.

Í gær 20. júní mældist hitinn 51,6°C í Íraq í Bastrah-Hussen, aðeins vantar brot úr gráðu til að ná þar meti.

Í Íran 52,2 í Abadan.  Þetta eru staðir á sléttum Mesópótamíu, þar sem verður hvað heitast á jörðinni.

Þá getum við bætt við að óvenjuheitt hefur verið í Mongolíu og NV-Kína að undanförnu.


Mikil hitabylgja þessa dagana í Bandaríkjunum, teygir sig frá Texas um Missisippidalinn og allt norður til Minnisota og Michican.  Sérlega rakt og hár næturhiti suður við Mexíkóflóann. Í raun hættulegar aðstæður.  Í dag er því spáð að brækjuhitinn nái til Chicago með 37°C.

Orsakir fyrir þessum hitabylgjum eru vitanlega hlýnun jarðar, en þó svo með óbeinum hætti.  Ef geislunaráhrifin ein væru að verki myndi hlýnunin smyrjast jafnar yfir jarðarkringluna og þessar hitabylgjur fletjast út.    Þessi staðbundni hiti á norðurhveli jarðar er afleiðing af fyrirbæri sem kallast samsveiflun í bylgjulestinni sem ferðast í háloftunum umhverfis norðurhvelið og stjórnar veðrinu t.d. hjá okkur.  Hlýnun loftslags hefur haft það í för með sér að bylgjurnar eru að jafnaði fleiri og krappari á sumrin en áður var. Ferð þeirra frá vestri til austurs hefur hægt á sér, jafnvel svo að þær eiga það til að stöðvast.  Undir öldutoppunum er hlýtt loft, hár loftþrýtingur og sólríkt veður. 

Það segir sig sjálft að þegar slíkt veðurkerfi staðnæmist yfir tilteknu landssvæði líkt og verið hefur á Spáni og í Frakklandi að undanförnu að þá verður brækjuhiti svo dögum skiptir.


Flestir halda að þessir hitar séu afleiðing einkum af því að heitt loft berst úr suðri, t.d. í Frakkalndi frá Sahara eða eitthvað slíkt.  Það átti hins vegar ekki við um helgina þegar hvað heitast varð þar.  Í þessum hlýju háþrýstisvæðum sem taka sér bólfestu, berst hlýja loftið með niðurstreymi ofan úr háloftununum.  Þar var það kannski 20°C í 1.500 m hæð og hlýnar um 1 stig fyrir hverja 100 metra sem það sígur niður og verður 35 stig við sjávarmál.  Sólin sér svo um rest, þ.e. að koma hitanum upp fyrir 40 stigin.

Á laugardag fór hitinn í bænum Biarritz í Frakklandi í 42,9 stig og er hann því strandbær við Biscay-flóa, en ekki lengst inn í landi eins og maður hefur haldið.

Muniði ekki umræðuna í fyrrasumar þegar hitinn í Lytton í Bresku Kólumbíu mældist 49,6°C, 29. júní og Kanadískt hitamet. Gerðist við áþekkar aðstæður, heit loftblaðra í tengslum við mikið háþrýstisvæði. Daginn eftir var þessi litli bær sem er á svipaðri breiddargráðu og Brussel, eldi að bráð og flest húsin brunnu ásamt því sem tveir fórust. Þvílíkar hamfarir, og einna helst á einhverja helgisögn dómsdagssögu til forna.    

Eitt af því sem loftslagsvísindafólk er að skoða um þessar mundir er umfang og styrkur þessara hæða, margt bendir til þess að þær séu meiri um sig berist norðar en áður og það tengist þessum bylgjugangi eins og ég nefndi hér áðan.  Hækkandi sjávarhiti og hlýnandi sjór kann að hafa þarna þýðingu.


Meira en 90% af hlýnun jarðar sem orðið hefur síðustu áratugina hefur hafnað í sjónum.  Hann geymir hita mjög vel. Sums staðar hefur hlýnun yfirborðssjávarins orðið 2-3 gráður s.s. norður við Svalbarða og eins í Atlantshafi úti fyrir austurströnd Bandaríkjanna.  Við hér á Íslandi þekkjum það manna best hvernig tiltölulega hlýr sjór umhverfis landið virkar á veturna eins og miðstöðvarofn og meðalhitinn á landi til lengri tíma er nánast alveg tengdur sjávarhitanum.  Og í öllu þessu flókna kerfi loftstrauma og blöndunar, kann hlýrri sjór úti á víðáttum Kyrrahafsins ekki aðeins að  tengjast sumarhitum í N-Ameríku heldur einnig í Evrópu.   

Þó svo að Íslenskar hitabylgjur að sumri standist enganveginn þeim snúning sem hér hafa verið nefndar, ættum við samt að hafa í huga þá veðurstöðu sem hér var uppi í fyrrasumar frá því seint í júní og fram í byrjun september.  Ótrúlega mikið staðviðri sem orsakaðist af þrálátu hæðarsvæði sem lengst af hélt sig á milli Íslands og Noregs.  Austurhluti landsins var lengst af innan áhrifasvæði þess og þar sem og norðanlands ríkjandi S-átt af einhverju tagi.

Á Akureyri hafði meðalhiti einhvers mánaðar aldrei náð 14 stigum frá upphafi mælinga um 1880. Metið var nærri 90 ára gamalt eða 13,3 stig frá júlí 1933.  En í júlí 2021 var meðalhitinn 14,3°C – með upp á heila gráðu. Og aftur fór meðalhitinn yfir 14 stig í ágúst.  Þetta var ótrúlegt, en fékk ekkert mikla athygli fanns mér þá. Í það minnsta ekki í tengslum við loftslagsbreytingar.  Vitanlega allir glaðir fyrir norðan- og austan með þetta einmuna sumar og allt það.

En greinilegt er næstu dagana að Ísland lendir botninum eða dragi á milli þessara bylgna. Það er hin hliðin á veðuröfgunum, þar sem hálfgerð ótíð getur orðið viðloðandi svo vikum skiptir.  Ég er ekki að segja það nú þó svo að það kólni á morgun og fram að helgi.  Hins vegar er fátt sem bendir til þess að sagan frá því í fyrra ætli að endurtaka sig.

Þessir miklu hitar sem við heyrum mikið af verða bara verri og verri.

Sjálfur er ég svo gamall að muna tal um svakalega blíðu og sumarhita á Bretlandseyjum og í Danmörku árið 1976. Þá var hæð yfir Bretlandseyjum og rigningarsumar af verri sortinni sunnan- og vestanlands. Ég heyrði Egil Ólafsson segja frá því að Stuðmenn hefðu verið í London þegar hvað heitast var að reyna að meika það í stórborginni.  Sprönguðu um á hvítum jakkafötum, en á þeim tíma var enn brennt kolum um alla borg.  Í stað þess að reykurinn stígi til lofts urðu jakkafötin kolagrá eftir skamma stund.  Þessi hitabylgja var sú mesta á Englandi í meira en 350 ár.  Síðan þá höfum við sambærilegar hitabylgjur 1995, 1997, 2003, 2006 og 2018.  Þeim hafa oftast fylgt miklar þurrkar.


Í rannsókn útgildum hiti í Frakklandi á stöðvum þar sem mælt hefur verið lengi var megin niðurstaðan sú að heitustu dagarnir vær um 4 stigum heitari en fyrir 100 árum og skilgreindur mikill hiti kæmi 10 sinnum oftar fyrir nú en fyrir einni öld.