ÁHUGAVERÐ TENGSL HITABYLGJUNNAR VIÐ LOFTSLAGSBREYTINGAR
Hitarnir í Evrópu þessa dagana rifjar upp niðurstöðu rannsóknar
sem greint var frá í árslok 2020 og vakti þá talsverða athygli. Ekki síst að þar var komist að þeirri
niðurstöðu að tvöföldun á CO2 í lofthjúpi gæti valdið þeirri hringrásarbreytingu að sumri í þá
veru að þurrkar og hitar yrðu algengari
í Evrópu
Efi Rousi leiddi rannsóknina og hún var síðast þegar ég
vissi við PIK veðurfarsstofnunina í Potsdam í Þýskalandi.
Í þessari umræddu grein: “Changes in North Atlantic atmospheric circulation in a warmer climate favor winter flooding and summer drought over Europe” var skoðað hvernig tíðni fjögurra einkennandi hringrása við N-Atlantshaf gæti breyst við tvöföldun á CO2. Sjálfur er ég reyndar á því að hringrásarflokkarnir séu fleiri, en látum það liggja á milli hluta. Þessir fjórir almennu eru sýndir á einfaldaðri og skýrri mynd frá Rousi.
Sá hringrásarflokkur sem er valdur að hlýindum og þurru veðri, þ.e. hæð yfir Bretlandseyjum er sá fjórði, AR- Atlantshafshæð. Stundum fyrirstöðuhæð vestur af Bretlandseyjum, en getur líka komið fram sem háþrýstingur yfir eyjunum. Oftast fylgir slíku veðurlagi hlýindi og góðviðri á þeim slóðum.
Greining á veðurfarslíkönum leiddi í ljós að tíðni AR (Atlantic Ridge) myndi að sumarlagi (ágúst) aukast um 62%. Með því væru hitar og þurrkar algengari sem því næmi en áður. Sést hægra megin á myndinni.
Rannsóknin beindist líka að breytingum að vetrarlagi (febrúar). Þar kemur fram aukning á tíðni veðurlagsflokksins NAO+. Ekki til umfjöllunar hér. Heldur ekki minna algengi hæðar yfir Skandinavíu árið um kring. Höfundar benda á þann annmarka í rannsókninni að hún byggi einverðungu á líkankeyrslum, sem taki síður til útgilda og öfga í veðri. Þá sé það þekkt að veðurfarslíkön vanmeti fyrirstöðuhæðir og stíflur í vestanvindabeltinu.
En að því sögðu er kenningin engu að síður áhugaverð, um aukna tíðni hæðarhryggs eða AR-hringrásarinnar að sumri. Við Ísland er getur veður samfara henni verið tvíþætt og oftast V-átt í grunninn: Ýmist SV-áttir með hlýindum og rigningum sunnan- vestanlands, en líka svalari og þurrari NV-átt, líkt og verið hefur einkenndi löngum hingað til þetta sumarið, 2022.
Annað sem rannsóknin leiddi í ljós og gleður færri, nefninlega veiking AMOC, - varmaflæðis hafstraumanna inn í N-Atlantshaf. Um það verður e.t.v. fjallað síðar er slóðin fyrir áhugasama greinina í Journal of Climate er hér:
https://journals.ametsoc.org/view/journals/clim/34/6/JCLI-D-20-0311.1.xml