ALVÖRU HRET FYRIR VESTAN

ALVÖRU HRET FYRIR VESTAN

Lægðin djúpa sem spáð er að fari norðaustur yfir landið verður hvað dýpst um 980 hPa yfir Norðausturlandi seint á morgun (16. júlí). Á undan ber hún með sér skil með rigningu og slagviðri, en það verður þó ekki svo tiltakanlega hvasst í SA- og A-áttinni í kvöld og nótt.  Þó allt að 13-17 m/s sunnanlands og hviður um 25 m/s.

En það er N- og NA-áttin á eftir lægðarmiðjunni sem mesta athygli fær.  Svo virðist sem að á Vestfjörðum skelli á hið versta veður seinnipartinn á morgun og vindur allt að því af stormstyrk (20 m/s).  Með fylgir óvenjumikil úrkoma fyrir árstímann.  Uppsafnað 50-100 mm á norðanverðum Vestfjörðum á um tveimur sólarhringum. Á Hornströndum allt að 100-150 mm. Þegar frá líður kólnar vitanlega í N-áttinni og hiti í byggð varla nema 2 til 5 stig.  Það þýðir að á Drangajökli og Ófeigsfjaðarheiði kemur til með að snjóa heilmikið og snjóar almennt í fjöll á norðanverðum Vestfjörðum og Ströndum niður undir 300 m.  Hretið nær líka til Norðurlands, einkum seint á föstudag og laugardag.  Snjóar líka til fjalla, en ekki eins hvasst og minni úrkoma en fyrir vestan.  En vitanlega kólnar um land allt.

Verður að segjast óvenjulegt í alla staði, bæði úrkomumagnið og hretið um hásumar.  Snýst ekki um að klæða af sér veður eins og stundum er sagt heldur að koma sér í húsaskjól.  Ekki síst á það við um fjölmarga gönguferðamenn á Hornströndum um þetta leyti árs.

Gemlufallsheiði er lágur fjallvegum sem tengir Önundarfjörð og Dýrafjörð.

Veðurkortin:

1.  Spá ECMWF af Brunni Veðurstofunnar.  Gildir 16. júlí kl. 18. 

2. Klukkustundagildi úrkomu kl. 12, þ. 17. júlí (föstudagur).  Fjólublátt - snjókoma.  Hormonie-líkan Veðurstofunnar fengið af Brunni.