APPELSÍNUGUL VIÐVÖRUN GEFIN ÚT AF VEÐURSTOFUNNI Í DAG

Á myndinni hér að neðan má sjá lista af Bliku yfir viðvaranir í gildi í dag mánudag í Reykjavík. 4 viðvaranir fyrir daginn í dag. 3 gular og ein appelsínugul. Á síðu Veðurstofunnar er í gildi ein gul veðurviðvörun fyrir höfuðborgarsvæðið. Blika sýnir réttar viðvaranir en Veðurstofusíðan gefur vitlausar upplýsingar.

Viðvaranirnar sem birtast á Bliku eru gefnar út af Veðurstofu Íslands. Þær eru gefnar út eftir CAP staðlinum. CAP staðalinn er alþjóðlegur og notaður um heim allan til að vara við veðri. Sendar eru út upplýsingar um tegund viðvörunar, gildistíma og svæði sem viðvörunin nær yfir. CAP staðallinn hefur reynst vel og fjöldinn allur af veðursíðum og forritum hafa innleit hann til að unnt sé að sýna viðvaranir á stöðluðu formi fyrir mismunandi svæði í heiminum.
Þegar við útfærðum viðvaranirnar á Bliku þá fórum við eftir staðlinum og lesum inn allar viðvaranir sem gefnar eru út fyrir Ísland. Viðvaranirnar eru svo birtar á síðunni þannig að bakrunnslitur breytist eftir útgefnum lit viðvaraninnar.
En hvernig stendur á þessu misræmi á síðu Veðurstofunnar og á Bliku? Vandmálið liggur í afmörkun svæðisins Suðurland og Faxaflói í viðvörununum. Á myndinni má sjá hvernig svæðið er skilgreint í appelsínugulu viðvörun dagsins.

Höfuðborgarsvæðið allt fellur undir spásvæðið. Samkvæmt staðlinum er því í gildi appelsínugul viðvörun fyrir höfuðborgarsvæðið frá klukkan 22 í kvöld og til klukkan 5 í fyrramálið.
Veðurspáin fyrir höfuðborgarsvæðið gefur að mínu mati ekki tilefni til þess að gefa út appelsínugula viðvörun fyrir Reykjavík. eðurfræðingar Veðurstofunnar ætla sér ekki að fara á appelsínugult fyrir Reykjavík, þar sem sérviðvörun er gefin út fyrir höfuðborgarsvæðið.
Þessi villa hefur verið til staðar í viðvaranakerfinu um áraraðir og við bendum reglulega á að þetta þurfi að laga. Veðurstofan sendir viðvaranir samkvæmt staðli og birtir svo annað á vefsíðunni sinni og býr þar með til misræmi sem kemur í ljós þegar aðrar síður sem birta viðvaranir eru skoðaðar. Þetta getur orðið til þess að draga úr trausti almennings á veðurspár og viðvaranir. Seinasta myndin er af vef meteoalarm, þaðan fá t.a.m. fjöldinn allur af ferðamönnum úpplýsingar um veðurviðvaranir. Þar sést greinilega bæði appelsínugul og gul viðvörun fyrir höfuðborgarsvæðið allt.

Það væri lítið mál að breyta síðunni hjá okkur þannig hún sýndi sömu viðvaranir og síða Veðurstofunnar, en þar værum við að brjóta staðalinn og birta rangar upplýsingar. Það viljum við alls ekki gera. Þess vegna skorum við á Veðurstofunna að laga svæðaskiptinguna og koma almennilega á hreint hvaða viðvaranir gilda fyrir höfuðborgarsvæðið fyrir næsta óveður.