Er hægt að spila landsleik í mars?

Eftir að Tyrkir og Frakkar gerðu jafntefli í forkeppni Evrópumótsins í knattspyrnu eru afgerandu líkur á því að Ísland verði að leiki umspilsleiki um laust sæti á mótinu. Vegna góðs árangurs íslenska landsliðsins á undanförnum árum fær liðið heimaleik í umspilinu sem fram fer um miðjan mars.
En er hægt að spila fótboltaleik utandyra á Íslandi í mars? Stutta svarið er já, spurningin er bara hvað kostar það mikið? Stærsta vandamálið er að gras þolir frost illa. Í fyrstu frostum á haustin leggst grasið í dvala og verður gult eða brúnt. Þekar sól hækkar á lofti á vorin og frost fer úr jörðu vaknar grasið úr dvalanum, verður grænt og fer að spretta að nýju. Þessa hringrás grassins ættu allir að þekkja.
Ef ekkert verður gert á Laugardalsvelli verður grasið í dvala og góðar líkur á því að yfir því muni liggja þykkur klaki í mars. Því er alveg ljóst að vernda verður grasið á einhvern hátt ef ætlunin er að spila þar.
Í boði eru tvær leiðir. Annars vegar að leyfa grasinu að leggjast í dvala, en vekja það upp af dvalanum seinnipart febrúar og í fyrrihluta mars. Hins vegar væri hægt að tryggja það að jörðin frjósi ekki þannig að grasið haldist grænt allan veturinn.
Líklegt er að ansi erfitt gæti orðið að vekja grasið af dvalanum um hávetur. Fyrst þyrfti að ná frosti úr jörðu og svo þyrfti að halda hita á grasinu það væri hægt með því að blása heitu lofti undir dúk sem lagður er á grasið. Dúkur var notaður til að halda grasinu grænu fyrir leik sem spilaður var í nóvember 2014. En dúkurinn er líklega ekki nóg. Grasið þarf einnig á sól að halda til að vakna almennilega upp af dvalanum. Þar sem lítil orka er í sólinni yfir vetrartímann þyrfti þá að nota lampa til að búa til gervisólskin.
Ef grasinu er haldið grænu allan veturinn minnkar þörfin á sólarljósi og líklega væri hægt að sleppa lömpunum. En þá þyrfti að halda grasinu heitu allan veturinn. Til þess væri hægt að nota dúkinn. Þá væri fróðlegt að sjá hvort dúkurinn myndi ráða við alvöru íslenskar vetrarlægðir.
Á Norðurlandi gerist það af og til að það byrjar að snjóa áður en gras verður gult á haustin. Þegar snjóa leysir svo á vorin kemur grasið grænt undan snjónum. Líf hefur haldist í grasinu þar sem snjórinn einangraði yfirborðið þannig að jörðin og þar með rætur grassins frusu ekki. Mögulega væri hægt að framleiða eða flytja snjó á Laugardalsvöll til að halda frosti úr jörðu. Svo væri hægt að bræða snjóinn með því að nota dúk í mars og fá grænt tilbúið gras með tiltölulega litlum tilkostnaði.
Án efa eru til fleiri leiðir til að tryggja að leikfært verði á Laugardalsvelli í mars og áhugavert verður að sjá hvað gert verður, en völlurinn er ennþá iðagrænn. Það er þó afar líklegt að grasið leggist í dvala nú í vikunni verði ekkert gerrt þar sem töluverðu frosti er spáð í höfuðborginni í vikunni.
Mögulega er ódýrasta leiðin að flytja stuðningsfólk landsliðsins á annan “heimavöll” á Norðurlöndunum og leyfa þar með íslenska vetrinum að stöðva grassprettuna eins og hann hefur alltaf gert.