FYRSTU 100 DAGAR - 64% ÁRSÚRKOMUNNAR NÚ ÞEGAR Í RVK

FYRSTU 100 DAGAR - 64% ÁRSÚRKOMUNNAR NÚ ÞEGAR Í RVK

Í Reykjavík hefur ekki rignt meira fyrstu 100 daga ársins í 100 ár.

10. apríl var 100. dagur ársins.  Úrkoma hefur verið mikil frá áramótum og enn hefur bæst drjúgt við í apríl, þó svo að ekki hafi rignt í Reykjavík allra síðustu daga. 

Samtals er heildarúrkoman á 100 dögum orðin 515 mm. Samsvarar því að 64% meðalúrkomunnar er þegar kominn.

Þessa sömu 100 daga má finna eitthvað svipað 1953, en þó markvert lægri tölur.

Helst að árið 1921 sé til samanburðar.  Þá var samanlögð úrkoma í jan, feb og mars 444 mm. Í apríl það ár bættust síðan við 149 mm.   Ekki þarf að koma á óvart að árið 1921 er það úrkomusamasta í Reykjavík í sögu mælinga með meira en 1.200 mm úrkomu.

Svo sem ekkert sérstakt keppikefli að eltast við þessi úrkomumet frá 1921, en rigna þarf 78 mm til viðbótar í apríl til að halda í við það ár fyrir 4  fyrstu mánuði ársins. 

Mið við spár næstu daga gæti það nú alveg gerst.  Veðurstofan gerir ráð fyrir um 40 mm frá skírdegi til páskadags og Blika er með yfir 50 mm í sinni spá !

Fyrra kortið sýnir loftþrýstifrávik úr endurgreiningu NCAR 1. jan - 9. apríl 2022.  Lægri lofþrýstingur við Austur Grænland og hærri við Írland leiðir til stríðari SV-átt þar á milli en að jafnaði. Mælikvarðinn aðeins annar en við egum að venjast!  Hitt kortið sýnir einmitt frávik vinds í 850 hPa fletinum (um 1.250 m).  Þar kemur vel fram stríðari SV-átt suður og suðvestur af landinu heldur en að jafnaði.  Rakinn er ættaður úr suðri og vindar beina honum síðan í áttina til landisns eða fram hjá eftir atvikum.