ESv | 13.01.2021 09:25
GJÖRÓLÍK STAÐA Í VEÐRINU ÞÁ OG NÚ

Veturinn 2020/21 stefnir í að verða eins ólíkur síðasta vetri, 2019/20 og hugsast getur.  Þá átt við norðurslóðir allar eða norðan við 40-50°N.

Meðfylgjandi mynd gefur þetta vel til kynna. Hún sýnir styrk vestanþáttar vindsins 100 hPa þrýstifletinum í um 15-16 km hæð, neðst í heiðhvolfinu – og eftir 60°N.  Svarta línan er meðaltal síðustu 30 ára og við sjáum að mest verður V-áttin um og upp úr vetrarsólstöðum  að jafnaði. Gráu rastarnir marka breytileikann.  Bláa línan sýnir síðan styrkinn í fyrravetur, 2019/20 og vel sést hve V-vindurinn var öflugur allan fyrravetur og nærri hágildi í febrúar og mars.  Veður á okkar slóðum einkenndist þá af tíðum illviðrum og stormum með snjóum og samgönguörðugleikum.  Inn yfir Evrópu barst milt loft í sífellu með V- (SV-átt) sem líka var öflug nær yfirborði jarðar.  Náði langt inn í Rússland og lítið bar því á Síberíukuldum, reyndar meiri hitar en áður hafa þar sést.


Rauða og bleika línan synir styrkinn í ár. Sjáum að þar til um jólaleytið haldast þær í hendur við þá bláu, en síðan mjög snögglega skilja leiðir og nú er styrkur V-áttarinnar með því lægsta sem verður.  Þessu veldur skyndihlýnun í efri hlutum heiðhvolfsins og hún kollvarpar hringrásinni sem einkennist af V-áttinni í háloftunum.  Auðvitað er þetta vel þekkt og ekkert nýtt undir sólinni þar. 

Um 10-15 dögum eftir veikingu vinda í heiðhvolfinu sjást þess merki í veðrakerfunum neðar.  NAO-vísirinn  mælir styrk V-áttar við yfirborð á N-Atlantshafi.  Hann verður neikvæður og er reyndar orðin það fyrir nokkru. Lægðabrautin veikist og færist sunnar. Minna er þá um storma hér og tíðin þurrari, stundum jafnvel mjög þurrt í vikur.  Veður á það til að leggjast í tilteknar áttir þar sem nálæg háþrýstisvæði verða ráðandi í stað lægða.  Austar verður Síberíukuldinn meiri og útbreiddari og heimskautaloft berst í ríkara mæli suður yfir Skandinavíu.  Suðlæg lægðabrautin beinir því köldu lofti með A-vindi yfir V-Evrópu og Bretlandseyjar með snjókomu.  Fréttirnar um kulda og snjó í Madríd eru líklega aðeins forsmekkurinn af því sem koma skal næstu vikur.

N-Ameríka verður líka fyrir miklum áhrifum.  Á meðan óvenju milt er við V-Grænland Labrador og þar um slóðir berst kalt loft með snjóum suður um Bandaríkin, stundum verða miðríkin fyrir barðinu á kuldunum, en sum árin „gömlu“ ríkin við austurströndina.

Annars er ekki til nein ein almenn  forskrift fyrir veður í kjölfar skyndihlýnunar.  Hér við Ísland höfum við séð eitt og annað í veðrinu og ýmist hlýtt eða kalt.  Í sumum tilvikum, einkum þeim vægari verða áhrif á veður við jörðu tiltölulega lítil.  Hefur líka sýnt sig að form hinnar veikari hringrásar hefur þar mikið að segja.  Seinni myndin sýnir spá 16. jan.  um vind í 30 km hæð.  Hvirfillinn er þarna tvípóla og hefur færst langt til suðurs yfir Asíu og N-Atlantshaf. Þ.e. frá heimkynnum sínum norðar þar sem hvifillin snýst þá um einn og oftast hringlaga ás. 

V-vindurinn í háloftunum mun hins vegar líklega ná sér á strik aftur þegar líður á veturinn, e.t.v. fyrir miðjan febrúar, spurningin er bara sú  hve lengi þessi truflun og veiklun hringrásarinnar varir að þessu sinni?  Áhrifin eru hins vegar mögnuð á allt veður hér í kring um okkur.

Skyndihlýnunin og orsakir hennar er vel þekkt.  Hins vegar vekur það ekki síður áleitnar spurningar hvað það er sem veldur því að hringrásin helst meira og minn á „yfirsnúningi“ eins og raunin var í fyrravetur.