Halaveðrið hið nýja

Halaveðrið hið nýja


Halaveðrið þarf væntanlega ekki að kynna fyrir veðuráhugamönnum. Ofsaveður skall á aðfaranótt 8. febrúar 1925 á Grænlandssundi, öllum að óvörum. Um var að ræða mjög hvassa norðaustanátt og gífurlega mikla ísingu. Á Halamiðum var fjöldi togara að veiðum þegar veðrið brast á. Lentu togararnir allir í stórkostlegum vandræðum í veðrinu. Flestir komu þeir þó í land í klakabrynju og mikið laskaðir 2 - 3 dögum eftir að veðrið gekk niður. Tveir togarar, Leifur Heppni og Fieldermarshal Roberts fórust ásamt samtals 68 manna áhöfn. Um er að ræða mannskæðasta sjóslys í Íslandssögunni.

Þegar veðurspáin fyrir annað kvöld (föstudagskvöld) er skoðuð kemur Halaveðrið helst upp í hugann. Á Grænlandssundi er núna hægviðri, 3 - 5 m/s víðast hvar og talsvert frost. Fyrirtaksveður fyrir veiðar og sjómenn sem ekki fylgjast með veðurfréttum gætu verið í mokfiskeríi á Halamiðum.

En góða veðrir staldrar stutt við. Búast má við fínasta veðri á Grænlandssundi til hádegis á morgun, en þá fer að hvessa. Stormur verður skollinn á um klukkan 13 og ofsaveður kl 16. Fárviðrið stendur svo yfir allt fram á sunnudag, þar sem búast má við vindhraða að 35 m/s og mikilli ísingu. Spákortin frá Veðurstofunni hér að neðan sýna stöðuna á miðnætti 11. jan vel.

Spákort gert á VÍSpákort gert á VÍ

Jaðarinn á vindstrengnum nær aðeins inn á Vestfirði en þar verður vindurinn ekki jafn hvass og stendur stutt yfir. Þannig er nær eingöngu um óveður á hafi að ræða. Það er þar til lægðin færir sig, en það er efni í aðra frétt.

Sem betur fer eru veðurspár mun betri í dag en fyrir 95 árum og líklegt verður að teljast að öll skip verði í vari á meðan veðrið geisar.