HELGIN 30. JÚNÍ TIL 2. JÚLÍ

Lægðin sem hringsólað hefur yfir landinu frá því snemma á
miðvikudag verður úr sögunni á morgun föstudag.
Ný lægð stefnir á Skotland og
veldur því að hér við land verður NA-átt yfir helgina. Hægur vindur til að byrja með, en hvessir
nokkuð á sunnudag, einkum þegar frá líður.
Svo merkilegt sem það kann að hljóma að þá berst til okkar hlýtt loft norðaustan úr höfum. Hlýnindin skila sér sunnan heiða á sunnudag
og á mánudag spáir Blika 18 stiga hita í Reykjavík og björtu sólskini.
Föstudagur 30. júní:
Hægur vindur og að mestu skýjað. Helst að sjáist til sólar
vestan- og suðvestanlands. Skúrleiðingar
austantil á Norðurlandi og austanlands. Ekki
kalt, en heldur ekki sérlega hlýtt, víða 9 til 13 stig að deginum.
Laugardagur 1. júlí.
Komin verður NA-átt um land allt, strekkingur norðantil á Vestfjörðum
þegar líður á daginn. Skýjað og smá væta norðaustan- og austanlands, jafnvel
þoka við sjóinn. Eins á Ströndum og norðantil á Vestfjörðum. Sólarglennur líklegar sunnan – og vestanlands,
en hætt við síðdegisskúrum, einkum til
fjalla. Hiti allt að 13-16 stig
sunnanlands, en 8 til 12 stig norðan- og austantil.
Sunnudagur 2. júlí:
Nokkuð ákveðin NA-átt þegar kemur fram á daginn, einkum um
noðrvestanvert landið. Líklega 10-18 m/s
síðdegis og um kvöldið. Lítils háttar
rigning eða suddu með köflum um austanvert landið, en sæmilega bjart sunnan- og
vestanlands. Hiti þar allt að 15 til 17
stig.