HITINN Á NORÐURHJARANUM

Loks bárust fréttir hingað af óvenjulegum og langvarandi hitum í Síberíu. Það þurfti hitamet til, 38 stig í bænum Verkojansk norður af Jakútsk. Sumarhitar eru ekki óalgengir þetta norðanlega þegar hlýtt loft úr suðri þvingast norður á bóginn. Kuldinn í jörðinn og kalt Ísahfið í norðri verkar samt temprandi, en síður nú eftir að hitinn hefur verið langt ofan meðallags meira og minna frá því í desember. Á eftir afar mildum og frostlitlum vetri koma hlýtt vor og hitabylgjur í kjölfarið líkt og nú.
Auðvitað á afbrigðileg og langvarandi staða veðurkerfanna mikinn hlut að máli. Við munum enn liðinn vetur, stormar og snjóar hér, en milt Atlantshafsloft barst á sama tíma langt til austurs inn yfir víðáttur Rússlands.
En hér fylgja greinargóð kort úr smiðju Scott Duncan
1. Hitinn í gær á norðurslóðum. Sjáum á rauðustu litunum hve hlýtt er í N-Rússlandi austur eftir öllu. Að sama skapi var svalt á okkar slóðum og vestur við Grænland. Kaldi liturinn þar er að mestu yfirborðshiti á jökli í um 3.000 m hæð! En gildistíminn er kl. 6 og þá var enn svalur morgunn á Íslandi.
2. Frávik meðalhita fyrstu 5 mánuði ársins sýna líka vel afbrigðilegan hita í Síberíu, en almennt að kalt hafi verið í N-Kanada. Reyndar ennig við Svalbarða (þó það sjáist ekki á kortinu).
Fróðlegt verður að fylgjast með þróun mála í sumar og hvar hitasvækjur júlí og ágúst bera niður að þessu sinni.