HORFUR Á HÆÐ YFIR BRETLANDSEYJUM

HORFUR Á HÆÐ YFIR BRETLANDSEYJUM

Hér við land er til skemmri tíma útlit fyrir heldur lækkandi frostmarkshæð, en fremur hægum vindi. Út vikuna snjóar annað veifið og lítillega á fjallvegum norðantil og sums staðar næturfrost eins og gengur.

En á sunnudag/mánudag, þ.e. um miðjan mánuðinn er spáð eftirtektarverðum breytingum á lofthringrásinni við N-Atlantshaf.  Bæði í spá Evrópsku reiknimiðstöðvarinnar (ECMWF) og Bandarísku alríkisveðurstofunnar (GFS).

Safnspá ECMWF frá í morgun er þannig áhugaverð.  Meginspáin og allar 50 safnspárnar reikna með  háþrýstisvæði yfir Bretlandseyjum.   Rauður ramminn vísar til flokks sem einkennist af fyrirstöðuhæð yfir Bretlandseyjum/Skandinavíu. Ákaflega hentugt tól hjá Veðurstofunni sem auðveldar túlkun á spám á 6. til 12.degi!

Það hefur aftur í för með sér sunnan stæðan vind í háloftunum hér við land. Á þessum árstíma fylgir þá að mestu milt og vorlegt veður. Oftar en ekki væta í einhverjum mæli sunnantil.

Safnspárnar gera síðan ráð fyrir því að hæðin færist í aukana og verði eiginlega fyrirstöðuhæð. Dagana 19. til 21. apríl flokkar kerfið safnspárnar í þrjá nokkuð jafna þriðjunaga. Seinni spámyndin sýnir þá, 20. apríl á sumardaginn fyrsta.   Tveir þeir fyrri eru keimlíkur með hálofthæðina yfir Skotlandi, Norðursjó og S-Noregi.   Hér á landi þá hiti markvert yfir meðallagi og S eða SV-þeyr.  1/3 safnspánna færa hæðina austar. Gangi það eftir eru meiri líkur á svalara loftið með uppruna úr suðvestri og hálfgerðu kalsaveðri sunnan- og vestanlands.

Aðalspá ECMWF miðvikudaginn 19. apríl reikna með mildu veðri, en aðalspá GFS sama dag, er með svalari gerðina ofan á.


Með því að skoða langtímaspár með þessum hætti lærist smám saman að meta óvissu og líkur. Engar safnspár gera ráð fyirr N-lægum vindi þar sem kalda loftið af ísasvæðunum ætti greiðan aðgang. Þýðir samt ekki að líkur á slíku séu núll, en safnspár ECMWF gefa klárlega til kynna að líkurnar á hreti þessa daga eru litlar. Á móti eru þær miklar á að framsókn vorsins verði nokkuð eindregin í næstu viku.

Þá eru metnar um 30-35% líkur á éljum eða slydduéljum og heldur lægri hita suðvestan- og vestanlands. Eða á einhvers konar dreggjum vetrar, en kalsa SV- og V-átt  er einmitt  ansi algeng einmitt um miðjan apríl og fram yfir sumarbyrjun.