HUGAÐ AÐ HAFÍSNUM

HUGAÐ AÐ HAFÍSNUM

Ég lét þess getið í umfjöllun á RÚV í vikunni,

https://www.ruv.is/utvarp/spila/thetta-helst/33405/9uicrr

að ástæða þess að svo kalt var í janúar 1918 samanborið við frostið nú hafi verið sú að hafís norður af landinu hafi veri sérlega mikill. Reyndar var útbreiðslan me mesta móti og lagðist hann að me allri norðurströndinni um leið og kólnaði. Þegar var hvað kaldast varð um 20. janúar hafi eyjan Ísland verið í raun hluti af samtengdu meginlandi yfir til Grænlands.

Nú er staðan allt önnur og því ekki kaldara en raun ber vitni miðað við hvað N-áttin hefur verið ríkjandi og heimskautaloftið algengt hér nærri.

Merkilegt nokk hefur hafísútbreiðsla ekki aukist að ráði í Austur-Grænlandsstraumnum síðustu vikurnar. Jaðarinn er nærri meðallegu árstímans. Reyndar virðist ísinn hafa aukist eitthvað að umfangi norðan Jan Mayen  í straumnum.     Líklega er það ís kominn úr Íshafinu.

Sjá hefur mátt á tunglmyndum að undanförnu að sjór hefur verið að frjósa í kuldanum. Það er nýmyndun íss. Í hvössum N-vindinum hefur þessi nýi ís brotnað upp og útbreiðslan því ekki verið að aukist.

Ísþrýstingurinn að norðan er líka óvenjulítill eftir mörg mögur ísaár í sjálfu Íshafinu eins og kunnugt er.

Sjá má á ískorti NSIDC að ástandið á okkar slóðum er eðlilegt. Hins vegar óvenju lítill ís við Svalbarða og  norðantil í Barentshafi.

Greining ECMWF spálíkansins á yfirborðshita sjávar sýnir greinilega tungu af köldum sjó fyrir austan land. Hún er eðlileg á einhverju formi. Stundum mjó og ræfilsleg, en nú er hún stærri og meir um sig. Þar eiga ríkjandi N-vindar sinn þátt. Í kjarna hennar undan Langanesi er ískaldur pólsjór þar sem selta er lág og sjávarhitinn um 0°C

Seinna kortið sýnir frávik sjávarhitans miðað við árstíma. Kaldi sjórinn fyrir austan er um þessar mundir allt að 1 stigi kaldari en að jafnaði og enn kaldara er norður af Langanesi. Hlýsjórinn vestur með landinu og á Grænlandssundi hefur hins vegar ekkert gefið eftir.

Fjólubláa tungan norður við Jan Mayen sýnir mikla útbreiðslu pólsjávar. Þar getur hæglega myndast talsverður nýr ís skapist til þessa réttar aðstæður meða hægum vindi og kyrrum sjó.

NA-áttin að undanförnu heldur pólsjónum frá og upp að strönd Grænlands.  Eftir leysinguna um komandi helgi er að sjá í spám aukin SV- og V-þátt vindsins hér yfir á stóru svæði. Einnig við ísjaðarinn norðurundan.  SV-átt í nokkurn tíma hægir á rennsli hafíssins með A-Grænlandsstraumnum og seltulitli pólsjórinn fær frekari útbreiðslu fyrir norðan land. Geri hægan vind og kyrran sjó í kjölfarið með frosti verða til góð skilyrði til nýmyndunar íss hér norðurundan.

Segja má að tíðarfarið frá því í byrjun desember hafi plægt jarðveginn fyrir kaldari sjó og nýmyndun. Þá eru vikur í kjölfarið með SV-átt engin óskastaða.

Ísþrýstingingurinn úr norðri er þó það lítill að ólíklegt má telja að hafís geris sig heimakominn þátt fyrir óhagstæða vinda.  Svalur sjór getur hins vegar náð meiri útbreiðslu fyrir vikið norður og austur af landinu, jafnvel yfir Atlantssjóinn úti fyirr Húnaflóa. Og haft sitt að segja m.a. fyrir næringarbúskap sjávar og jafnvel veður í vor og komandi sumar norðan- og austanlands.

Allt eru þetta þó vangaveltur í ætt við; ef.. og hefði..félag það sem kennt er við Þórarinn Eldjárn!

*Myndin er frá Siglufirði 9. mars 1965 og birtist í Morgunblaðinu. Ljósmyndari: Steingrímur.