HVAÐAN KEMUR KULDINN?
Heldur þykir þetta snemmt fyrir hausthret. Yfirleitt kólnar djúpt norður af landinu þegar sumri hallar og loft af þeim slóðum berst til okkar með vindum, oftast N-átt einhverntímann haustsins. Næturfrost í heiðríkju eru af öðum toga.
Nú er þessu mjög öðruvísi farið. Um helgina mátti sjá kalda háloftalægð yfir kanadísku túndrunni vestur af Baffinslandi. Þar eru heimkynni slíkra hvirfla á öllum tímum árs. Hins vegar gerðist það fyrir svo sem tveimur til þremur dögum að hvirfillinn tók á rás til suðausturs, yfir Grænland og á okkar slóðir. Kalda loftið með honum og blöndun við hlýrra loft fyrir sunnan ásamt hringsnúningi hvirfilsins myndar síðan lægð við yfirborð sem dýpkar fyrir austan land og veldur hér N-stormi. Lægðin rétt missti af annari bylgju sem fór til norðausturs fyrir sunnan land. Inn í lægð dagsins dregst síðan svalt loft í lægri lögum ættað frá Grænlandsströndum.
Á móti kulda loftmassans vinnur síðan upphitun sjávar, en enn bera yfirborðlögin fyrir norðan land skýr merki eftir sumarhitunina. Það er okkar vörn gegn köldu lofti langt að komnu og gerir það að verkum að í þessu fyrsta hreti sjáum við ekki hita niður undir frostmarki fyrr en í um 500 metra hæð (krapi heldur neiðar). Hitamunur sjávar og loftsins veldur varmastraumum í formi uppgufunar sem aftur eykur á úrkomuna þegar rakt loftið berst yfir norðan- og austanvert landið.
Yfirborðsjórinn kólnar merkvert eftir N-áttina og frostmarkshæðin verður lægri í næsta hreti, hvenær sem það nú kemur.
En afhverju tok Baffinshvirfillinn á rás? Ekki til einfalt svar við því, en athygli beinist að gríðarmikilli og heitri hæð sem tekið hefur sér bólfestu við V-strönd Bandaríkjanna. Slík heit "blaðra" hreyfir rækilega við bylgjugangi háloftastraumanna. Svona geta hlutirnir nú hangið saman í veðrinu hjá okkur !
*Spákortið er úr GFS spánni af wxcharts.com og gildir kl. 6 á föstudag.