ÍSING OG BILANIR Á RAFLÍNUM Á ÞREMUR STÖÐUM

ÍSING OG BILANIR Á RAFLÍNUM Á ÞREMUR STÖÐUM

Landsnet greindi frá því að Fljótsdalslína 2 á Hallormsstaðahálsi væri nokkuð mikið löskuð og leiðarinn sigið vegna ísingar.  Stæða brotnaði á Teigarhornslínu á Öxi. Þriðja bilunin varð síðan á Norðurlandi á Hólasandslínu 3 (sem er ný lína) þar sem leiðari slitnaði vegna ísingar. Kröflulína 1 sem er samsíða Hólasandslínunni bilaði síðan einnig á svipuðum stað.

Allt varð þetta vegna skýjaísingar og staðirnir eru merktir inn með gulri stjörnu á meðfylgjandi kort frá Landsneti.

Skýjaísing er merkilegt fyrirbrigði.  Hún verður eingöngu í skýjahæð og ofan 350 m hæðar, þegar rakamettað loft berst í sífellu með vindi og undirkældir smádropar frjósa þegar þeir rekast á mastur eða línu sem fyirr verður.  Skýjaísingin getur safnast upp á tiltölulega löngum tíma og á endanum myndað mikið farg sem sligar línuna í þessu tilvika. Stundum dregst hún niður til jarðar undan þessum þunga, slitnar eða brýtur mastrið sem heldur henni uppi.

Á Hallormsstaðahálsi á milli Fljótsdals og Skriðdals liggja þrjár línur og ná þar upp í 570 m hæð.  Á eldri yfirlitsmynd sjást þær allar saman.  FL2 er veigaminnsta línan fremst á myndinni, en það var hún sem laskaðist nú.  Hefur margoft orðið fyrir ísingaráraun á einmitt þessum stað. FL3 og FL4 eru stærri línurnar. Þær liggja frá Fljótsdalsstöð og til Álvers Alcoa.  Á myndinni má líka sjá stutt höf (Test span) tilgangi mælinga á ísingu . Út úr myndinni til hægri er síðan veðurstöðin. Á FL3 mældist aukinn þungi á einum leiðara í morgun (7. Nóv) 4,5 tonn!

Veðurathugunarstöðin Hallormsstaður kemur  einmitt við sögu á næstu mynd. Þar er línurit vinds og að neða hita og daggarmarks.  Sjá má að 2. nóvember, þ.e. sl. fimmtudag hvernig vindhraðinn fer lóðbeint niður í núll.  Greinilegt merki ísingar á vindmælinn. Á stuttum tíma frýs hann fastur og var svo allt til 7. nóvember. Ísingin dettur ekki af fyrr en hlánar. Á raflínum getur ísinn brotnað af þegar hvessir og höfum hugfast að sé spenna á línunni fæst lítilsháttar varmi vegna viðnáms sem flýtir fyrir því að ísinn brotnar af.

Hita- og rakamælingarnar  eru hins vegar lítt trúverðugar frá 2. nóv, því líklega lokar ísingin að mestu fyrir loftskipti.  Þó er það ekki víst í þessu tilviki og vel er þekkt að áraun skýjaísingar eru hvað mest í vægu frosti þegar loft er loft er jafnframt mettað og mögulega örlítið yfirmettað.

Bakflæði

Veðurstaðan sem veldur þrálátri NA-átt með stöðugu aðstreymi af röku lofti kalla ég gjarnan Bakflæði. Af hverju það?  Jú fær heiti sitt af því að raka loftið rennur „aftur á bak“ með NA- eða A-átt þar sem litlar breytingar verða á vindátt, raka og hita í margar klukkustundir eða jafnvel daga. Vindsnúningur með hæð er líka lítill. Því er einnig A- og NA-átt í háloftunum sem alla jafna heyrir frekar til undantekninga.

Veðurkortið er nokkuð dæmigert fyrir Bakflæðis-veðurstöðuna.  Meðalkort loftþrýstings 28. okt til 6. nóv.  Þrálátur lægðagangur fyrir sunnan- og suðaustan land.  Þær lægðir beina raka í lægri lögum af hafsvæðunum djúpt austur og norðaustur af landinu og í veg fyrir kaldara (og þurrara) loft í norðri og norðvestri. 

Í febrúar 2014 var þessa staða uppi lengi vel og þá voru einnig mikil og þrálát isingarvandræði á raflínum  á Austurlandi með tilheyrandi truflunum og tíðu straumleysi.