JÚLÍSPÁIN

JÚLÍSPÁIN

Hér fylgir frávikaspá næstu fjögurra vikna fyrir stöðuna í háloftunum eins hún var reiknuð af Bandarísku alríkisveðurstofunni (NCEP).  Líkindadreifing 16 samhliða keyrslna (e.ensemble).  Hún nær langleiðina út júlí og háloftaspákortin eru með athugasemdum frá Simon Lee í Reading.

Vika 1. 29. júní - 5. júlí.

Kalt frávik í háloftunum fyrir austan landið.  Hér ríkjandi NA-átt.  Fremur svalt norðan- og austanlands, en að mestu þurrir dagar. Kólnar sunnantil, en sæmilega milt samt a.m.k. yfir daginn. Þurrt að mestu og þokkalega sólríkt.    

Vika 2. 6. -12. júlí.

Háloftadragi er spáð yfir landinu, a.m.k. framan af vikunni.  Líklega markvert kaldara en í meðallagi.  Skiptast á skin og skúrir, en ekki mikil rigning.

Vika 3. 13. - 19. júlí.

Háþrýstisvæði er spáð yfir Bretlandseyjum. Veður hér breytist þá hér á landi gangi þetta eftir og mildara loft úr suðvestri berst yfir landið. Ríkjandi vindátt á milli suðurs og vesturs.  Hlýnar mjög norðaustan- og austantil og þar sólríkt, en dagar með skýjuðum himni suðvestantil og suddi eða rigning annað veifið.

Vika 4.  20. -26. júlí

Svipaðri veðurstöðu er spáð áfram eins og sjá má á kortinu neðst til hægri.

__________________________________________________

Spá á mánudagskvöld (29. júní) frá Evrópsku reiknimiðstöðinni er í svipaða veru, en spágetan þar fjarar greinilega út í fjórðu vikunni.  

* Ljósmyndin er af vefnum Trölli.is í Fjallabyggð