LANGTÍMASPÁ - OKTÓBER TIL DESEMBER
Rétt eins og áður
er fylgst með þriggja mánaða spáreikningunum hér á Bliku. Þeir voru birtir í
dag saman frá 8 reiknisetrum á Kóperníkusarstofnuninni. 5 þeirra eru á svipuðu róli, en 3 með nokkuð
aðra niðurstöðu.
Ef við höldum okkur við þá Evrópsku (ECMWF) en hún er ein þeirra 5, að þá gefur hún til kynna nokkuð afgerandi spá og háloftafrávik sem segja verður að komi nokkuð á óvart.
Drifkraftarnir
eru ýmsir, m.a. afgerandi frávik í yfirborðshita sjávar á nokkrum stöðum eins
og sagt var frá hér í gær. Einnig er óvenjulegur kuldi í heiðhvolfi á suðurhveli jarðar líklegur til að
hafa áhrif á hringrásina síðar í haust hér á norðurhveli. Þar eru tölfræðileg
tengsl. Ýmsir aðrir þættir koma við sögu
og ekki má gleyma allt umlykjandi tilviljuninni í þessum efnum.
En sé spáin frá ECMWF túlkuð, sést greinilegt hæðarfrávik í háloftunum á stóru svæði, allt frá Nýfundanlandi, um Grænland og Ísland og austur fyrir Skandinavíu. Dálítið sérstakt og jafnvel ótrúverðugt ef út í það er farið. Gangur lægða austur yfir Atlantshaf verður samkvæmt þessu minni en venjulega og jafnvel spretta upp tíðar fyrirstöðuhæðir. Á svipuðum slóðum kemur einnig fram greinilegt frávik loftþrýstings.
Ekki gott að
segja hvers kyns veður fylgir slíkri hringrás hér á landi. Getur orðið
kaflaskipt, vikur sem einkennast af hlýindum og S eða SV-átt en á milli hálfgerð
kuldaköst með N-átt. Kannski ekki ósvipað og í desember 1995 og á myndinn er vitnað
til Veðráttunnar. Þá voru frávikin í háloftunum nokkuð áþekk og spáin sýnir nú.
Minnir að þennan
vetur (eftir snjóflóðin mannskæðu á Flateyri seint í október) að þá hafi tíð haldist svo góð frá á
árið 1996 að varla þurfti að hreyfa snjóruðningstæki á Vestfjörðum!
Sama spálíkan verður enn frekar afgerandi fyrir mánuðina nóvember til janúar. Þá mjög greinilegt háþrýstifrávik suður af landinu.
Þýska spáin, sem er ein þeirra 5 á svipuðu róli gerir klárlega ráð fyrir veikari hringrás í heiðhvolfinu (e. polar vortex) a.m.k. fram undir áramót. Sést á síðustu myndinni og í ágætu samræmi við þrýstifrávikin. Blái og rauði ferillinn. Eins fylgir þessum spám greinilegt merki um neikvæðan NAO vísi, ólíkt því sem var í janúar og febrúar í ár, þegar hann var bullandi jákvæður með tilheyrandi lægðagangi og tíðum illviðrum og samgöngutruflunum.
Þessar þriggja
mánaða spár eiga það alveg til að fara illilega í vaskinn, en undanfarin misseri
hafa þær hitt nokkuð vel, t.d. fyrir nýliðið sumar hér á landi. Spágetan gæti þó
allt eins verið einskær tilviljun!