ESv | 08.10.2019 07:17
LANGTÍMASPÁIN SKÝR - STYTTIST Í SNJÓ

Nýjasta langtímaspá ECMWF er mjög skýr.  Ég er þar að tala um mánaðarspárnar sem reiknaðar eru á mánudögum og fimmtudögum.  Hér fylgja tvö kort af Brunni Veðurstofunnar.  Bæði sýna næstu viku, dagana 14.til 20. október.  Þetta er meðatalspá allrar vikunnar.  Þegar spáð er einsleitu veðri og ekki miklu breytingum í vikunni koma líka fram skýr frávik.

1. Við sjáum greinilegt háloftadrag yfir landinu og einkum hér skammt austur af.  Lægðir á leið sinni til ANA fyrir sunnan land valda þessu meðaltals dragi.

2. Þegar svona háttar til eru ríkjandi vindáttir á milli austurs og norðurs.  Þrýstikortið sýnir líka eindregna NA-átt í næstu viku, eiginlegt framhald á núverandi veðurstöðu.  

3. Loftmassahiti verður undir meðallagi, 1 til 2 stig frá októberhitanum sem er að jafnaði tæplega 6 stig í Reykjavík og rúm 5 á Akureyri.  Höfum líka í huga að meðalhitinn lækkar hratt  í október.

4. Heldur áfram með rigningartíð norðan- og austanlands, frá Ströndum austur á firði. En breytingin er sú að nægjanlega kalt verður fyrir snjó á fjallvegum og því vissara fyrir íbúa þar að huga að vetrardekkjunum, eigi menn t.d. leið yfir Fjarðarheiði eða Mývatns- og Möðrudalsöræfi, nú eða Öxnadalsheiði.  Heldur ekki útilokað að snjóað gæti í byggð.

Judah Cohen, bandarískur veðurfræðingur, segir í mánudagsspjalli sínu að næstu vikurnar komi til með að einkennast af virkari hringrás í heiðhvolfinu, jákvæðum gildum á AO (Arctic Oscillation) og þar með virkum lægðagangi á meginvindröstinni.  Rólegheit hins vegar og kólnandi á norðurhjaranum.  Hann vinnur mest úr spágögnum vestanhafs.  Rímar vel við evrópsku spána hér að ofan.

Rétt að geta þess að ECMWF gerir líka ráð fyrir annarri sviðsmyndl. Lægðirnar fara vestar og þá með  breytilegri veðráttu hér.  Líkur á þeirri sviðsmynd eru aðeins 10-15%.  Því telst  tveggja vikna spáin vera einsleit að þessu sinni.