LARRY koðnar niður
Fylgjast þarf vel með leyfum fellibylja sem stundum hrekjast hingað norður eftir. Það er vegna þess að þó mestur kraftur sé úr þeim, varðveitist hringhreyfing umhvefis miðjuna lengur og getur hún spólað upp venjulegar lægðir. En þá verður líka flest að falla saman. Gamlir fellibyljir bera líka með sér mikinn raka og huga þarf vel að úrkomuákefð þegar rignir á okkar slóðum og loftið er jafnframt af hitabeltisuppruna.
Mestu áhrifin eru samt þau að stundum ryðja þeir brautina fyrir aukið aðstreymi af heittempruðu og röku lofti norður á bóginn í kjölfar þeirra.
En LARRY er enn fellibylur og það nokkuð myndarlegur, 966 hPa í miðju í morgun. Stefnir hann á Nýfundnaland og þar er bæði varað við vindi, en ekki síður hárri ölduhæð úti fyrir. Á laugardagskortinu mótar vel fyrir fellibylnum í háloftavindinum. Þetta er 500 hPa kort ECMWF fengið af Brunni VÍ. Ágætt til á átta sig á heildarmyndinni. Bylgja eða drag er norðvesturunan og bylurinn dregur það inn í sig um leið og hann breytist í lægð yfir tiltölulega köldum sjónum þarna umhverfis.
Við það fellur þrýstingur á ný og er spáð 962 hPa á laugardagsmorguninn. En lægðin fer á mis við kaldasta loftið norðvesturundan. Hún er ekki í fasa við það eins og stundum er sagt. Því grynnist lægðin aftur áður en SA-strengurinn á undan skilum hennar nær til Íslands seint á sunnudagskvöldið. Hún gæti reyndar dýpkað eitthvað að nýju þegar mest er um garð gengið hjá okkur.
Því hljóðar spáin á sunnudagskvöld upp á nokkuð venjulega hauststorm, en langt því frá illviðri eins og einstaka sinnum hefur fylgt fellibyljaleifum hér við land. Síðast í Ellenarveðrinu í september 1973, en því fylgdi margháttað foktjón sunnan- og vestanlands. Samt þarf áfram að fylgjast vel með. Spálíkönin eiga það til að hrista þennan kokteil vitlaust.
Það má þó kenna/þakka LARRY því að næsta viku verður rigningarsöm sunnan og suðaustanlands.
Rigningar í september eru þar fyrir utan engin tíðindi!