Lægðin sló ekki metið

Lægðin sló ekki metið

Á föstudag var fjallað um lægð laugardagsins sem var óvenju djúp. Talið var mögulegt að hún yrði dýpsta lægð sögunnar á heimsvísu. Spár gerðu ráð fyrir að þrýstingur í lægðamiðju yrði 916 - 918 hPa, sem ekki er langt frá metinu sem er um 912 - 913 hPa þrýstingur. Hér að neðan er greiningarkort bresku veðurstofunnar.

Spákort gert á VÍ

Greiningarkortið sýnir lægðina dýpsta 922 hPa. Greiningakortið er þó bara gert á 6 tíma fresti og líklega hefur hún orðið eitthvað dýpri en það. Það er þó ekkert sem bendir til þess að lægðin hafi náð nálægt 913 hPa metinu á milli athugunartíma. Eftir stendur þó að áratugir eru síðan svo  djúp lægð hefur sést. 

Loftþrýstingur mældist lægstur 932 hPa í Surtsey, sem er óvenjulegt en þó þarf ekki að leita lengra aftur en til ársins 2015 til að finna athugun sem sýndi lægri loftþrýsting. Nokkur fjarlægð lægðamiðjunnar frá landinu olli því að þrýstingur mældist ekki lægri í þetta sinn. Klukkan 3 aðfararnótt sunnudags mældist þrýstingur undir 950 hPa á öllu landinu sem er afar óvenjulegt, en sennilega ekki einsdæmi.

Nú verður ágætt veður víðast hvar um landið næsta einn og hálfan sólarhringinn áður en lægðagangurinn byrjar aftur. Þó er ekki útlit fyrir að lægðirnar verði eins djúpar og veðrið jafn vont og var í síðustu viku.