LÍTIÐ VATN Í JÖKULSÁ Á FJÖLLUM Í SUMAR

LÍTIÐ VATN Í JÖKULSÁ Á FJÖLLUM Í SUMAR

Einn mælikvarðinn á hitagæði sumarsins er að skoða rennsli í jökulám, en það ræðst að verulegu leyti af bráðnun jökulíss.  Vitanlega kemur rigning líka við sögu.  Hún skipti t.d. miklu í vatnavöxtum í Þórsmörk um miðjan ágúst.

Jökulsá á Fjöllum hefur nokkuð stöðgut grunnrennsli frá lindám undan hraunum norðan Vatnajökuls, en megnið er samt jökulvatn komið frá Dyngjujökli, Kreppa úr Brúarjökli bætist síðan við.  Rennslið er lítið yfir veturinn, eykst í takt við snjóleysingu og einkum jökulbráðnun sem nær oftast hámarki um og fyrir miðjan ágúst. Fleira hefur áhrif en lofthitinn og þar munar lang mest um beina sólgeislun á jökulinn þar sem smám saman skítugra eða yrjóttara yfirborðið drekkur í sig varmageislun sólar. 

Rennslið í Jökulsá á Fjöllum var lengi að vaxa þetta sumarið og hret í júlí með nýsnjó á Dyngjujökul jók endukast og dró þar með úr bráðnun. Á endanum náðist þó sumarrennsli sem hér er skilgreint sem að jafnaði 300 m3/sek yfir daginn, mælt við Grímsstaði á Fjöllum.  Áin komst ekki sumarrennsli fyrr en 4.ágúst skv. þessu.  Stuttur leysingartími í raun gerði það síðan að verkum að hámarksrennsli sumarsins var mun minna en oftast hefur verið undanfarin 20 sumur eða svo.  Um leið og kólnaði í lok sumars og frysti á jökli snar dró eðlilega úr bráðnun og dægurrennslið fór aftur niður fyrir 300  4. september. 

Í fyrrasumar var bráðnunin mun meiri, hófst miklu fyrr og mikið rennsli sem við skilgreinum hér sem 450 m3/sek stóð í fullar fjórar vikur frá miðjum júlí og fram undir miðjan ágúst.  Í ár aðeins í örfáa daga um og eftir 15. ágúst. 

Þetta er mikill munur á milli ára, leysingartíminn uppi á hájöklunum er til þess að gera stuttur.  Minni leysing í ár segir vitanlega til sín í jöklabúskapnum.  Veðurstofan ofl. reiknar út afkomun í lok vatnsársins, en þar eru "áramót" 1. okt.  Fari svo að jöklabúskapurinn verði jákvæður væru slík tíðinda bara nokkuð ánægjuleg í röð margra ára sem flest hafa sýnt samfellda rýrnun jökulhvelanna.   

* Rennslisgögnin eru frá Veðurstofunni (óyfirfarin). Myndin er fengin úr vísindagrein Baynes og félaga frá 2016.