LOÐNAN ER EKKI TÝND

LOÐNAN ER EKKI TÝND

Loðnuleitin í vetur minnir á ævintýralega síldarleit sem fram fór sumurin 1967 og 1968.  Þá héldu menn að síldin væri týnd norður í höfum þegar hún var í raun horfin með öllu.

Fjölmörg skip hafa leitað nú  og virðast hafa fundið aftur og aftur sömu smáu torfurnar, sú síðast suður af Papey.  Illu heilli er loðnustofninn í mikill lægð og líklega ekki hægt að kenna ofveiði þar um heldur umhverfisbreytingum í hafinu. 

Sjálfur hef ég nokkrum sinnum bent á þá augljósu kenningu að hnignun loðnustofnins sé eitt skýrasta merkið um loftslagsbreytingar sem hér eru að verða og með hlýnun sjávar við landið.  Íslandsmið eru nefnilega á suðurmörkum kjörsvæða loðnunnar. 

Í viðtali við Morgunblaðið 10 des. sl.sagði ég m.a. þetta:

___________________________________________________

Ísþekjan á undanhaldi

Um ástæður loðnubrests nú beinast sjónir manna meðal annars að hlýnun sjávar fyrir norðan og vestan landið. „Hlýnunin á sér tvær orsakir,“ segir Einar Sveinbjörnsson. „Annars vegar kemur til innflæði hlýsjávar úr suðri fyrir vestan land og inn á norðurmið. Hluti þessa er vegna svokallaðrar AMO-sveiflu. Sú kemur á 70-80 á ára fresti, en hún skipti yfir í jákvæðan fasa laust fyrir aldamót og hefur svo verið síðan. Áþekk breyting varð hér við land upp úr 1920.“

Hin skýringin á breytingum í loðnunni – og ef til vill sú veigameiri – er sú að minna er um hafís úr norðri samfara því að ísþekjan í N-Ísahafinu hefur skroppið saman. „Áður var landfastur ís við Austur-Grænland úti fyrir Vestfjörðum að sumrinu og fram á haust. Á síðari árum hefur ísjaðarinn hörfað langt norður með ströndinni þegar minnst er um hafís. Fyrir vikið er útbreiðsla kalds pólsjávar hér við land minni en var,“ segir Einar.

„Ungloðnan heldur sig í og við pólsjóinn, á síðustu árum í mestum mæli við Austur-Grænland. Fullorðna loðnan fer stöðugt norðar í ætisleit. Sú spurning er áleitin hvort þessi löngu ferðalög loðnunnar eftir æti séu henni um megn. Orkufrek um of og langt að fara á bestu hrygningarslóðina á grunninu í Faxaflóa og Breiðafirði í áliðnum mars þegar vorblóminn í yfirborðssjónum byrjar að sýna sig eftir veturinn. Þessu má raunar líkja við sjófugla. Þó að þeir fljúgi langt eftir síli sjá allir að ef ætisleiðangrarnir eru stuttir aukast líkur á að koma ungum á legg.“

Hugsanlegur nýliðunarbrestur

Fyrrgreind þróun segir Einar Sveinbjörnsson að sé um margt svipuð því sem hefur verið raunin í Barentshafi, eins og fram kom í viðtali við Birki Bárðarson fiskifræðing í samtali við Morgunblaðið á dögunum. „Það er margt sameiginlegt í vistkerfunum í Barentshafi og við Ísland og á báðum hafsvæðunum er loðnan í lægð. Í þessum loðnustofnum er hugsanlega einhvers konar nýliðunarbrestur og ekki ómögulegt að sú hlýnun sem hefur orðið í sjónum síðustu ár hafi haft áhrif,“ sagði Birkir í viðtalinu. Þar kom einnig fram að engar vísbendingar séu um, hvorki við strendur Noregs og Íslands, að gengið hafi verið of nærri loðnustofnunum með veiði. Á báðum stöðum gangi ráðgjöfin út á að skilja nóg eftir til hrygningar og ráðgjöf hafi verið fylgt.

Loðnan er í svokölluðu þriðja fæðuþrepi vistkerfis sjávar. Neðar eru svifþörungarnir og dýrasvifið. Þorskfiskar, selir, sumir hvalir, og sjófuglar þurfa allir fæðu úr þessu þriðja þrepi. Þar er líka sandsíli og rækja. Sérstaklega er loðnan mikilvæg og meginfæðutegund þorsks sérstaklega mánuðina fyrir hrygningu hans. Þessi veruleiki kann líka að hafa áhrif, segja vísindamenn.

__________________________________________________________________________________

Loftslagsbreytingarnar farnar að bíta

Hörfun hafíssins síðustu 80-100 árin og hlýnun sjávar síðustu 20 árin er að hluta e.k. taktur í þekktum sveiflum, en líka vegna hlýnunar lofthjúps af mann völdum.   Loðnan hefur verið gjöful í efnahagslegu tilliti, en hún er líka mikilvægast fæða þorsks, einkum hrygningarþorsk.  Ég hef í raun meiri áhyggjur af þeim þætti loðnuleysins.

Eldri rannsóknir (Jóhann Sigurjónsson, 2005) áætluðu að þorskur og aðrir fiskar ætu um 1.3 millj. tonna af loðnu, hvalir annað eins, slatti fer í sjófugla og veiðar voru þá um 1 millj. tonn á ári.   Ársafrán loðnunnar  á velmektardögunum var því rúmlega 4 millj. tonna.  Til samanburðar var allur þorskur úr sjó á síðasta fiskveiðiári um 250 þús. tonn.  Loðnan er líkt og sandsílið í þriðja þrepi fæðupíramídans í sjónum og mjög mikilvægur hlekkur á milli frumframleiðslunnar, svifgróðurs og smákrabba og síðan fiska, spendýra og fugla ofar í fæðukeðjunni. 

Að þessum þætti loftslagsbreytinganna þarf klárlega að gefa meri gaum, bæði efnahagslega þáttinn og ekki síður lífríkið sjálft í öllu sínu veldi.  Hafrannsóknir eru um of auðlindastýrðar og beinast einangrað að ákveðnum nytjastofnum, en síður hugað að samhengi og stóru myndinni.  Þarna þarf Hafrannsóknastofnun (Haf og Vatn) að girða sig í brók.