NÆGJANLEGA ÓSTÖÐUGT FYRIR ELDINGAR?

NÆGJANLEGA ÓSTÖÐUGT FYRIR ELDINGAR?

Ísland er það norðarlega að skúraklakkar sem myndast við upphitun yfirborðs á sumri ná yfirleitt ekki þeirri hæð sem nauðsynleg er til að aðskilja hleðslu í nægjanlegum mæli til að fá eldingar. Skúrir eða haglél án eldinga er því oftast raunin þegar loft er óstöðugt eins og það er í dag og eins á morgun.

Reiknaður er lyftistuðullinn, CAPE, og meðfylgjandi Harmoniekort Veðurstofunnar sýnir hann kl. 12 á hádegi. Hann er grunnurinn að lóðstreymi, en fleira þarf til.

Sólin þarf þannig að verma yfirborðið að morgni og keyra þannig í gang uppstreymið. Þá þarf að vera til staðar nægjanlegur raki í loftinu, því þegar hann þéttist losnar um varma og óstöðugleikinn eykst. Þá þarf helst að vera lægðahringhreyfing í hærri lögum, en hún ýtir undir lóðstreymi. Hún er til staðar nú og sjá má á hinu kortinu af Brunni Veðurstofunnar kl. 12 í dag hér nærri Íslandi.

Í dag eru líkur á kröftugum skúrum eða hagléljum, því óvenju kalt er í háloftunum fyrir árstímann. Mestar líkur tel ég á eldingum þar sem sólin náði að skína í morgun. Það var í uppsveitum Suðurlands og inn á heiðarlöndum í Húnaþingi og Skagafirði. Almennt hjálpa fjallshlíðar og uppstreymi við fjöll til lyftingar lofts yfir þann þröskuld sem þarf til að leysa út eldingar.