NÝJUNG Á BLIKU - VINDHVIÐUSPÁR
Á ferðalagi um landið er nauðsynlegt að huga að vindi og vindhviðum á veginum. Flestir kannast við það að að vindhviður eru reglulega til vandræða og yfirleitt á sömu stöðunum. Þannig þekkja líklegast flestir íbúar höfuðborgarsvæðisins að komast ekki norður í land eða að þurfa að húka á bensínstöð í Borgarnesi að bíða eftir því að það lægi unidir Hafnarfjalli eða við Kjalarnes.
En nú auðveldast málið. Við vorum að setja í loftið vindhviðuspá sem nær til helstu vindhviðustaða á þjóðvegunum yfir sumartímann. Hægt er að smella á tengil á forsíðu Bliku og sjá líkur á vindhviðum yfir 20 m/s fyrir þessa helstu staði. Auk þess er hægt að smella á hvern stað fyrir sig til að sjá nákvæma vindaspá fyrir næstu 3 daga.
Spáin byggir á sögulegum veðurathugunum auk þess sem vindáttar- og vindhraðaspár Bliku eru notaðar. Við keyrsluna er miðað við svokallaðann hviðustuðul. Hann er hlutfallið á milli mestu hviðu og meðalvindhraða. Hviðustuðullinn er breytilegur á milli staða auk þess sem hann er breytist eftir vindátt og vindstyrk, sem útskýrir af hverju erfitt reynist yfirleitt að spá fyrir um vindhviður. Nýja líkanið okkar nær þeim þó ansi vel svo nú er um að gera að kíkja á Bliku áður en lagt er af stað í ferðalag.
Spáin nær eins og er til 14 staða alls staðar af á landinu, en markmiðið er að bæta við fleiri stöðum með haustinu. Áfram verða þó vindhviðustaðir sem við getum ekki spáð fyrir, þar sem nauðsynlegt er að veðurmælingar séu á svæðinu til að hægt sé að framleiða spá með þessum hætti.