Ótrúlegar vindatölur á Suðurlandi

Ótrúlegar vindatölur á Suðurlandi

Það er hreint ótrúlegt að skoða veðurathuganir á vef Veðurstofunnar fyrir kvöldið í kvöld. Vindhraði er nær alls staðar yfir 20 metrum, og víð yfir 30 metrum. Mestur er vindurinn á toppi Skálafells, en þar hefur hann náð 58 m/s mest í kvöld. Það er aðeins rúmum 4 m/s frá mesta vindhraða sem mælst hefur á Íslandi. Ekki er útilokað að það met eigi eftir að falla í þessu óviðri. Einnig vekur athygli mikill vindur á Þingvöllum, 29 m/s og 42 m/s í hviðum. Svo háar tölur hafa trúlega ekki sést á Þingvöllum í háa herrans tíð. Að vísu sýnir mælirinn á Þingvöllum þveröfuga vindátt, en trúlega er hann vitlaust pólaður og sýnir réttan vindhraða.


Vindurinn í Reykjavík stingur í stúf, einungis 12 m/s, og hefur vart farið hærra í kvöld. Byggð og gróður í nágrenni mælisins hefur greinilega áhrif á mælinguna á Bústaðavegi. Annars staðar á höfuðborgarsvæðinu mælist mun meiri vindur og hafa stöðvarnar Seltjarnarnes, Geldinganes og Straumsvík verið að sýna vindhraða 24 - 28 m/s meira og minna í allt kvöld.

Nú hefur veðrið líklega náð hámarki á suðvesturlandi og mun draga hægt og rólega úr vindinum, þó má búast við töluverðum vindi allt fram á hádegi á morgun miðvikudag.