SAMANBURÐUR Á LÍKÖNUM - EKKI TAKA MARK Á YR

Á Íslandi eru 3 mismunandi fínkvarða spálíkön keyrð. Veðurstofan keyrir Harmonie IGB líkanið í 2,5 km upplausn sem byggir á spá frá Evrópsku reiknimiðstöðunni, Blika og Belgingur keyra svo 3 km spálíkan sem byggir á spá frá NOAA í Bandaríkjunum.
Oft er lítilsháttar munur á spánum sem litlu máli skiptir, en núna er munurinn öllu meiri og mikilvægari, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Fyrsta myndin sýnir spá Bliku klukkan 18 í dag. Spáð er vindhraða um eða yfir 24 m/s á höfuðborgarsvæðinu öllu. Mestur er vindhraðinn tæplega 28 m/s vestast á svæðinu. Spá Belgings er í grófum dráttum eins, enda keyrð á mjög líkan hátt og Blikuspáin.
Næsta kort er úr Harmonie líkani Veðurstofunnar. Það gerir ráð fyrir minni vindhraða á höfuðborgarsvæðinu, rétt yfir 20 m/s, nema vestast þar sem spáð er allt að 28 m/s.
En hvað veldur þessu misræmi? Í norðanátt skýlir Esjan öllu jafna stærstum hluta höfuðborgarsvæðisins. Þannig er norðanáttin yfirleitt hægari á höfuðborgarsvæðinu en í nágrenni þess. Nú er vindur í lofti meiri en sést hefur í langan tíma og gera spár Bliku og Belgings ráð fyrir því að Esjuskólið gefi eftir og sé ekki til staðar í óveðri sem þessu.
Á hinn bóginn spáir Harmonie líkanið að Esjuskjólið haldi, þrátt fyrir mikla veðurhæð. Erfitt er að áætla hvaða líkan er rétt enda margt sem hefur áhrif á það.
Undanfarin ár hafa margir á Íslandi notast við veðurspár frá norska veðurvefnum yr.no. Yr framleiðir mjög góðar spár fyrir Noreg, en leggur lítið upp úr því að spár fyrir Ísland séu góðar. Það líkan er keyrt í mun grófari upplausn en íslensku líkönin og landupplýsingarnar eru mun lakari. Yr spáir nær alltaf of litlum vindi á Íslandi, og það er ábyggilega raunin núna þegar spáð er 10 - 11 m/s í Reykjavík í kvöld. Það er í góðu lagi að nota YR á sumrin þegar beðið er eftir góðu veðri, en alls ekki þegar spáð er óveðri eins og núna. Þá er klárlega betra að notast við íslensku líkönin.