SKYNDIHLÝNUN Í HEIÐHVOLFI SKILAR SÉR NIÐUR

SKYNDIHLÝNUN Í HEIÐHVOLFI SKILAR SÉR NIÐUR

Eins og áður var greint frá varð svokölluð skyndihýnun í heiðhvolfinu um áramótin.  Í kjölfarið veiktust vindar og hægði á hringrásinni í 20-30 km hæð.  Sú veiking skilar sér niður á um 10-15 dögum með einhverjum hætti.Undanfarna daga hafa sumir beðið nokkuð spenntir eftir því hvernig spálíkönin reikna áhrif alls þessa.

Smám saman eru þau að skýrast.  Næstu daga verða grunnar lægðir hér við land og nær milt loft aftur yfirhöndinni og frostlaust að mestu á láglendi í um 2-3 daga.

Um og upp úr helginni er spáð einu af ríkjandi einkennum loftgringrásarinnar í kjölfar skyndihlýnunar í heiðhvolfinu - nefnilega fyrirstöðuhæð yfir Grænland saman með veikari skotvindum sem færast langt til suðurs.  Þeir hafa reyndar þegar hafði þá vegferð sem snjókoman í Madríd var m.a. til vitnis um.


Fyrra kortið af Brunni Veðurstofunnar sýnir stöðu mála í um 9 km hæð mánudaginn 21. janúar.  Grænlandshæðin er voldug og Ísland liggur undir norðanstraumnum í austurjaðri hennar.   Enn austar beinist kalt loft úr norðri og austri yfir Skandinavíu og V-Evrópu, enda engin V-átt lengur til að halda kuldabola frá, líkt og raunin var í allan fyrravetur.  Reyndar magnast hann um allan helming þegar svona háttar til í lofthringrásinni.

Seinna kortið er ný meðalvikuspá einnig frá Evrópsku reiknimiðstöðinni og gildir 18. til 24. janúar. Hæðarhryggur í háloftunum að jafnaði vestur af Íslandi.  Niðurstreymi lofts og líklega alveg þurrt sunnan- og vestanlands ef þetta gengur eftir, en í ríkjandi NA-átt verða einhver él af hafi norðaustan- og austanlands.  Kaldir loftmassar í austri, en mildir í vestri.  Við lendum á milli, en vegna heiðríkju og útgeislunar eru nú samt líkur á að hitinn verði lengst af undir frostmarki. 

Þessi staða er líka forskrift af neikvæðum NAO vísi.  Hann er nú ríkjandi í langtímaspá reiknimiðstöðvarinnar a.m.k. fram í febrúar, þó óvissa aukist vissulega þegar frá líður.