SKYNDIHLÝNUN NÚ Í HEIÐHVOLFINU (16. FEB)

SKYNDIHLÝNUN NÚ Í HEIÐHVOLFINU (16. FEB)
Í nokkrar vikur hefur verið yfirvofandi skyndihlýnun í heiðhvolfinu. Á ensku kallast hún Sudden Stratospheric Warming (SSW). Gerist með þeim hætti að varmi berst við sérstakar aðstæður neðan úr veðrahvolfinu og upp í heiðhvolfið. Að vetrinum er öflug hringrás eða hvirfill yfir norðurskautinu í 20-50 km hæð. Heiðhvolfshvirflinum er stundum ruglað saman við heimskautahvirfilinn í veðrahvolfinu. Sá er reyndar oftast tví- ef ekki þrískiptur og sjaldnast nánast yfir norðurskautinu líkt og raunin er með þann í heiðhvolfinu. Meðfylgjandi mynd sýnir aðskilnað þessara hringrása, heiðhvolfshvirfillinn er hringlaga á meðan bylgjur eru ríkjandi í heimskautaröst veðrahvolfsins.
Síðustu daga hefur orðið vart þessarar skyndihlýnunar. Uppi í 30 km hæð hefur hlýnað frá um -50°C í 0°C. Afleiðingin er sú að hvirfillinn brotnar saman á tveimur til þremur sólarhringum. Sama gerist með vestanstæðan vindinn. Næsta mynd sýnir straumlínur vindsins 3. feb. sl. í um 30 km hæð. Hringlaga líkt og hann er búinn að vera meira og minna frá áramótum. Með vorkomunni veikist hvirfillinn smám saman og hverfur endanlega í kring um sumardaginn fyrsta.
Sú næsta sýnir hins vegar vindinn í þessari sömu hæð eins og þeir voru 16. feb. kl. 00. Þá í fyrsta sinn var vindáttin að jafnaði A-stæð eftir 60°N í stað öflugrar V-áttar.
Það er vel þekkt að 10-15 dögum síðar varpast hægari
vindurinn þarna upp niður í veðrahvolfið og þar hægir oftast á styrk V-áttarinnar. Veiking V-áttarinnar eða
heimskautarastarinnar dregur mjög úr lægðagangi yfir Atlantshafið og þar með á
okkar slóðum. Háþrýstingur af einhverju
tagi verður áberandi og þegar dregur úr varmastreymi nærri yfirborði á Atlantshafi
í átt til Evrópu, kólnar gjarnan þar.
Bretar eru þannig mjög meðvitaðir margir um að í kjölfar SSW sé hætt við
2ja til 4ja vikna köldum kafla með austanvindum af meginlandinu. Þannig var t.a.m.
ástatt í mars 2018 eftir skyndihlýnun sem dagsett var 12. febrúar.
Mælingar sýna að skyndihlýnun heiðhvolfs verður að jafanaði tvo
vetur af hverjum þremur. Þá frekar þegar
er annað hvot El-Nino eða La-Nina ríkir í Kyrrahafinu. Stundum minniháttar og önnur skipti meiriháttar eins og gengur og
gerist.
Þá vetur sem ekki verður vart neinnar truflunar á hringrás
heiðhvolfsins, einkennsist tíðin á okkar slóðum gjarnan af fari djúpra lægða
við landið, tíðum stormum og ótíð. Fylgir
þá sérlega lágur meðalloftþrýstingur hér á landi, líkt og var síðasta vetur (2021-22),
einkum í janúar og febrúar.
EN HVAÐ GERIST NÚ
2018 (12. feb) og 2009 (24. jan) var skyndihlýnun heiðhvolfs
við svipaðar aðstæður lofthjúps og nú. Í bæði skiptin voru þetta vetur með La-Nina
í Kyrrahafinu og vestanvindi yfir miðbaug. Svokölluð QBO sveifla, (háttbundin 27
mánaða), en vestur-fasi hennar er talin ýta undir skyndihlýnunina fremur ern
austanfasinn.
2018 stóð ekki á vörpunninni niður til veðrahvolfs. Tók
10-15 daga og í kjölfarið gerði kaldan marsmánuð á Bretlandseyjum. Tíðin hér
einkenndist af kaflaskipum mánuði hvað hita varðar, fyrst kalt, en síðan mjög
milt. Febrúar 2018 þótti hægviðrasamur og lítið um illviðri.
2009 heldur ekki. Ekki tók nema 8-10 daga að hægja á lægðaganginum sem verið hafði nokkuð fjörugur vikurnar
á undan. Lítið var um illviðri og
samgöngur voru lengst af greiðar.
Síðustu vikur höfum við ekki farið
varhluta af talsvert öflugum og köldum hvirfli í veðrahvolfinu vestur af
Grænlandi. Tilurð og styrkur hans á mikinn
þátt í óveðurslægunum að undanförnu á N-Atlantshafi. Hæð yfir Bretlandseyjum og þar austur af
hefur síðan beint lægðunum til okkar eða vestur fyrir land.
Tölfræðin segir að með hlýnuninni
að ofan muni hvirfillinn (Stóri-Boli) veikjast eftir nokkra daga og verði jafnvel
hvorki fugl né fiskur að 2-3 vikum liðnum.
240 klst. spá ECMWF er hins vegar ekki að sýna annað en áframhaldandi kuldahvirfil yfir Labrador og við Hudsonflóa. Spá GFS sýnir reyndar hæð suður af Íslandi (og mild S-átt á okkar slóðum). Kaldi kjarninn í vestri er hins vegar enn til staðar.
Ýmsir hringrásarvísar eins og AO og NAO eiga samkvæmt “bókinni” að stefna næstu daga frá jákvæðum gildum í markverð neikvæð. Spár um breytingar í þá veru er enn sem komið er tempraðar.
Annað hvort eru langtímaspárnar
alveg úti að aka eða að skyndihlýnunin í heiðhvolfinu hafi lítil áhrif á
hringrásina í veðrahvolfinu. Dæmi eru um
slíkt, en þau færri en þessar drastísku breytingar sem verða í veðrinu í kjölfarið
og áhrifin vara þá í nokkrar vikur. Hér á landi með hæðum í stað vetrarlægða.