Reykjavík
Sveinn Gauti Einarsson | 11.06.2019 16:22
Spár gera of mikið úr skýjahulu nærri sjó næstu daga

Undanfarna daga hefur mikið verið rætt um góða veðrið sem spá hefur verið í dag og næstu daga. Framan af var jafnvel talað um svipað veður og hitametsdaginn 1939 og hitabylgjuna í ágúst 2004. Nú er ljóst að ekki verður jafn hlýtt og þá. Samkvæmt sjálfvirkum spám þá verður veðrið ekkert sérstakt næstu daga nærri sjó. T.a.m spáir sjálfvirka spá Veðurstofunnar því að hitinn slefi í 10 gráður á morgun miðvikudag og að alskýjað verði lungann úr deginum. Að sama skapi spáir Blika 12 gráðum, en þó sól yfir heitasta tíma dagsins.


Þarna höldum við að spálíkönin séu að gera ansi mikið úr þeirri kælingu sem verður frá hafi. Við teljum að nokkuð heiðríkt verði næstu daga og að hitatölur gætu orðið umtalsvert hærri en sjálvirku spárnar gefa til kynna suðvestanlands, en þó hætt við því að þokuloft verði viðvarandi við ströndina norðan- og austanlands. Það aldrei að vita hvort fyrsti 20° C dagurinn í Reykjavík þetta sumarið komi í vikunni. En við spyrjum að leikslokum og höldum áfram að fylgjast með.