SPÁR ÚR LÍKANI VEÐURSTOFUNNAR NÚ LÍKA Á BLIKU

Notendur Bliku hafa mögulega tekið eftir því í dag að breyting hefur verið gerð á síðunni. Þegar spá fyrir einhvern næstu daga er valin þá birtast nýjir hnappar efst þar sem boðið er upp á annars vegar Blika 3km og svo Harmonie IGB.
Þarna er um að ræða mismunandi líkön. Blika 3km er sjálfgefið og er það sama gamla Blikulíkanið og við höfum verið að nota undanfarið. Harmonie IGB er svo eitt af háupplausnarlíkönum Veðurstofunnar sem notað er við gerð spáa hjá þeim.
Þannig er nú hægt að fá spár úr líkani Veðurstofunnar fyrir alla 9.000 spástaðina á Bliku. Það getur verið hentugt að bera saman líkönin tvö þegar mat er lagt á það hversu áreiðanleg veðurspáin er fyrir hvern tíma. Ef mikill munur er á spá hvors líkans þá er spáin minna áreiðanleg en þegar líkönin eru nokkurnveginn sammála.
Einungis er hægt að velja um spálíkan fyrir u.þ.b. 3 daga fram í tímann. Það stafar af því að líkan Veðurstofunnar nær ekki lengra en það. Að sjálfsögðu verður áfram hægt að skoða spár 10 daga fram í tímann úr líkani Bliku.
Spár úr Harmonie líkaninu eru ennþá í tilraunaútgáfu og ekki útilokað að vart verði við villur í framsetningu næstu daga.