STRAUMURINN LIGGUR AUSTUR

Á Bliku höldum við utan um það af hvaða stöðum fólk leitar. Yfirleitt eru það sömu staðirnir sem eru vinsælastir. Reykjavík er eðlilega ávallt vinsælasti staðurinn hjá okkur, en yfirleitt er Akureyri ekki langt undan. Þar á eftir koma svo iðulega staðir eins og Selfoss, Borgarnes, Akranes og Keflavík. Vinsældir þessara staða tengjast án efa að mestu leiti íbúafjöldi í þessum bæjum.
Við ákváðum að skoða að hvaða stöðum fólk leitaði í gær fimmtudag. Útfrá því má fá ágætis ágiskun á það hvert ferðalangar stefna um helgina. 15 vinsælustu staðirnir að Reykjavík frátaldri eru:
1. Akureyri
2. Vestmannaeyjar
3. Selfoss
4. Flúðir
5. Egilsstaðir
6. Kirkjubæjarklaustur
7. Ísafjörður
8. Laugarvatn
9. Hella
10. Akranes
11. Stykkishólmur
12. Borgarnes
13. Siglufjörður
14. Húsafell
15. Borgarfjörður Eystri
Akureyri er vinsælasti staðurinn, og ber höfuð og herðar yfir alla aðra staði. Það má að einhverju leiti rekja til reglulegra notenda sem eru búsettir á Akureyri (Akureyringar eru almennt duglegir að nota Bliku), en ekki eingöngu. Mun fleiri skoðuðu Akureyri en á venjulegum júlídegi. Kemur ekki á óvart, enda hátíðin ein með öllu haldin á Akureyri um helgina. Eflaust margir sem ætla að skemmta sér þar um helgina.
Vestmannaeyjar eru númer 2, enda von á miklum fólksfjölda þar um helgina. Heilt yfir eru staðir á Suðurlandi áberandi á listanum. Alls eru 5 staðir á Suðurlandi á topplistanum, allir á topp 10. Það verður að teljast líklegt miðað við þetta að stór hluti umferðarinnar muni liggja austur fyrir fjall, enda spáin skást þar.
Á topplistanum eru 4 staðir á Vesturlandi, þar á meðal Húsafell, enda bæði gisting þar í sumarbústöðum og tjaldsvæði nærri höfuðborgarsvæðinu. Norðurland á einn fulltrúa á listanum auk Akureyrar. Á Siglufirði verður síldarævintýri um helgina sem vekur greinilega áhuga hjá notnedum Bliku. Austurland á svo 2 síðustu fulltrúana á listanum. Það eru annars vegar Egilsstaðir, en það er öllu jöfnu einn vinsælasti staðurinn á Bliku og svo Borgarfjörður Eystri. Það kemur einna mest á óvart á þessum lista, en það er ákaflega fallegt á Borgarfirði og ekkert skrítið að landsmenn vilji halda þangað um helgina.
Við skoðuðum líka listann yfir vinsælustu tjaldsvæðin. Sá listi er algjör einstefna. 14 vinsælustu tjaldsvæðin eru á Suðurlandi. Tjaldsvæðið á Hömrum í Kjarnaskógi er svo númer 15. Gaman er að sjá að tiltölulega nýtt tjaldsvæði í Vatnsholti í Flóa er vinsælast í dag. Þar á eftir fylgja svo mörg af helstu tjaldsvæðum á Suðurlandi. Ætli fólk að vera í tjaldi á Suðurlandi um helgina er eins gott að leggja snemma af stað til að ná stæði.
1. Vatnsholt í Flóa
2. Gaddstaðaflatir
3. Vík
4. Flúðir
5. Skaftafell
6. Skógafoss
7. Kirkjubæjarklaustur
8. Reykholt í Biskupstungum
9. Faxi
10. Kleifar Kirkjubæjarklaustri
11. Laugarvatn
12. Vestmannaeyjar
12. Árnes
13. Hellishólar
14. Árhús
15. Hamrar
Tjaldvefurinn hefur notið mikilla vinsælda hjá okkur í sumar. Sér í lagi hefur möguleikinn að raða tjaldsvæðum eftir veðri slegið í gegn. Það er líklega að hluta til vegna þess að veðrið hefur verið óstöðugra í sumar og ekki hægt að fara á hvaða stað sem er á Austurlandi og vera vikum saman í góðu veðri líkt og í fyrra.