Sveinn Gauti Einarsson | 25.06.2020 10:58
STUTT EN ÖFLUG HITABYLGJA Á SUNNUDAG?

Margir veðuráhugamenn hafa eflaust fylgst spenntir með veðurspánum síðustu daga. GFS líkan NOAA hefur núna í nokkra daga spáð því að óvenju heitt loft nái til landsins á sunnudaginn. Líkan evrópsku reiknimiðstöðvarinnar hélt vonum manna niðri framan af, en nú eru bæði spálíkönin sammála því að heita loftið berist yfir landið, og að hiti í háloftunum verði með því hæsta sem sést á Íslandi.

En heitur loftmassi þýðir ekki alltaf að hiti við yfirborð verði hár. Til þess þurfa fleiri þættir að vinna saman. Til að hiti nái upp undir eða yfir 30 gráður þarf eftirfarandi að gerast:

1. Mjög heitur loftmassi þarf að ná til landsins.
2. Einhver vindur þarf að vera til að tryggja lóðrétta blöndun loftsins og að heita loftið nái til yfirborðs.
3. Annað hvort þarf að vera landvindur, eða hár loftþrýstingur sem heldur hafgolunni frá, þó ekki endilega nauðsynlegt inn til landsins.
4. Sólin þarf svo að skína yfir hádaginn. Best er ef hitabylgjan hittir sem næst sumarsólstöðum.

Nú er það stóra spurningin. Hversu mörg af þessum "hitabylgjuskilyrðum" fáum við næsta sunnudag. Allar spár eru sammála því að hingað berist heitt loft með nokkuð kröftugri austanátt. Þættir 1 og 2 eru þar með uppfylltir. Austanáttin sér einnig til þess að hafgola nær sér ekki á strik á vestanverðu landinu, svo líka er hægt að tikka í box 3 fyrir vesturhluta landsins.

Mesta óvissan er um sólina. Líkönin eru ósammála um skýjahuluna. Evrópska líkanið, sem spár Veðurstofunnar byggja á, spáir alskýjuðu og einhverri úrkomu víðast hvar. Þá gæti hitinn náð 20 gráðum þrátt fyrir alskýjað veður og einhverja rigningardropa. Líklegast yrðu þó töluvert kaldara víðast hvar og hálfgert leiðindaveður eins og spákort Veðurstofunnar ber með sér.


GFS spáin, sem spár Bliku byggjast á, gerir á móti ráð fyrir því að víða létti til og að hitinn muni þar af leiðandi rjúka upp. Eins og staðan er núna spáir Blika t.a.m. 25 stiga hita í Varmahlíð og víða annars staðar í Skagafirði.


Enn er fullsnemmt að segja til um það hvort þessi hitabylgja fari í sögubækurnar, eða endi í töluvert þykkari bók sem geymir hitabylgjur sem hefðu geta orðið en brugðust svo þegar á hólminn var komið.

Ólíklegt að hitamet landsins, 30,5 gráður frá 1939, falli. Til þess þyrfti heita loftið að staldra lengur við og sólin að skína lengur. Ef allt gengur upp má þrátt fyrir það búast við hita á bilinu 25 - 28 gráður þar sem best lætur. Hlýja loftið staldrar stutt við. Hlýindin gætu staðið eitthvað fram á mánudag, en eftir það er spáð öllu hefðbundanara íslensku sumarveðri.