STYTTIST Í SVIKALOGNIÐ SUÐVESTANTIL

STYTTIST Í SVIKALOGNIÐ SUÐVESTANTIL

Sjálf lægðin var fyrr í morgun djúpt suður af Reykjanesi, um 943 hPa, og á leið til norðurs og enn heldur dýpkandi. Meginskilin eru komin norður um land og þar snjór og bleytusnjór.  Hins vegar hlánar á eftir þeim og gerir hálfgert "svikalogn" yfir hádegið.

Á þessari fínu tunglmynd frá kl. 07:45 sjáum við skýjakerfin.  Vek athygli á skarpa flókanum í vestri.  Þetta eru afturbeygðu skil lægðarinnar sem hem hún hringar um sig.  Á ensku kallast þau "sting jet", en ekkert þjált íslenskt orð er til um þetta fyrirbæri.  Í háloftunum er milt og rakt loft komið umhverfis lægðarmiðjuna og á sama tíma er kalt loft úr vestri að troðast inn undir þennan bakka.  Fyrir vikið eykst hitamunur og þar með þrýstistigull til suðurs.

Afturbeygðu skilunum fylgir því SV og V-srormur og að mestu með hríð, þó sumst staðar bleytuhríð til að byrja með.

Það er einmitt þessu sem verið er að lýsa í ábendingum veðurfræðings og rétt að íbúar suðvestanlands og austur með suðurströndinni sem og í Borgarfirði og víðar vestanlands búi sig undir talsverðan hvell eftir hádegi.  Það versta vari ekki í nema 2-3 klst. en áfram verða dimm él, hvasst og skafrenningur.


Ábendingar til vegfarenda frá veðurfræðingi til  Vegagerðarinnar.

7. janúar kl. 08:00

Á milli kl. 14 og 15 brestur hann á með V og SV 18-25 m/s suðvestan- og síðar vestanlands. Krapahríð fyrst í stað á láglendi, en síðan hríðarkóf. Það versta verður yfirstaðið undir kvöldið. Á Vestfjörðum er reiknað með NA 18-23 m/s og blindhríð til kvölds.