TVÖ MJÖG ATHYGLISVERÐ SPÁKORT

Bæði úr 750 m keyrslu Harmonie líkans Veðurstofunnar frá miðnætti.
Það fyrra sýnir
reiknaða uppsafnaða úrkomu til kl. 6 í fyrramálið. Hún er gríðarmikil. Gulu
svæðin marka 100 mm. Ótrúlega víðfem fyrir svo mikla úrkomu. Sjá má hágildi yfir 200 mm annars vegar á
Flateyjardalsskaga og hins vegar nærri Þeistareykjum. Útgildaspár (sjá kort neðst) gefa líka til kynna aftaka
úrkomu. Óvissan er hins vegar um form úrkomunnar. Klárlega snjór þó ofan 300-400 m og krapi eða
bleytusnjór þar fyrir neðan. Hins vegar spurning um regn, slyddu eða snjó í
neðstu 100 m þarna þar sem ákoman er mest.
Hitt kortið sýnir
vindhraða í 10 m hæð suðaustanlands kl. 19 í dag, sunnudag. Ekki er auðvelt að
greina útlínur landsins, en ágætt að miða við Ingólfshöfða sunnan Öræfajökuls sunnarlega
fyrir miðri mynd. Í illviðrinu 25. sept sl. þegar einnig blés af N eða NV fram
af brúnum Vatnajökuls, var á mörkum þess að mesti vindurinn næri niður á
láglendið. Nú leikur hins vegar lítill
vafi á því og veðurhæðin sem reiknast t.d. við Jökulsárlón og í Suðursveit er
hrein ofboðsleg. Ljósguli liturinn markar 32 m/s eða fárviðri og slíkur vindur er
áætlaður langt úr á haf á nokkuð breiðu belti eða frá Breiðamerkurjökli austur
á Mýrar. Þar jafnvel 40 m/s í meðalvindi.
Vonandi eru þetta ýkjur í vindaspánni, því ef ekki yrði þetta hamfaraveður á þessum slóðum. Mjög hvasst vitanlega áfram austar s.s. í Hornafirði og austur fyrir Lón.
Þriðja kortið hér að neðan gefur til kynna útgildi sólarhringsúrkomunnar í dag í grófara líkani ECMWF samanborið við endurgreiningar síðustu 20 ára. Halavísirinn í dreifingu úrkomunnar (SOT) eru klárlega í hærri kantinum og skír vísbendingum hvað við eigum í vændum, jafnvel þó svo að þetta líkan sé í fremur grófri upplausn.