Sveinn Gauti Einarsson | 06.04.2021 17:31
UPPFÆRÐ ELDGOSASPÁ

Í ljósi nýjustu hreyfinga á umbrotasvæðinu á Reykjanesi var nauðsyn á að uppfæra eldgosaspána okkar. Spánni hefur nú verið breytt þannig að nú tekur spáin einnig mið af aðstæðum í Meradölum.

Ætla má að töluverð gasmengun geti orðið niðri í Meradölum í hægum vindi og norðvestlægum áttum. Í kvöld er einmitt spáð þannig veðri, svo áhugavert verður að sjá hvort meira gas mælist þar en verið hefur á útsýnisstöðunum í nágrenni Geldingadala.


Jafnframt kom í ljós að gasspáin var ekki nægjanlega nákvæm í ákveðnum vindáttum. Það hefur einnig verið lagað. Okkur hafa borist ábendingar þess efnis að vindur í spánni hjá okkur sé yfirleitt lægri en vindurinn sem mælist á mæli Veðurstofunnar á Fagradalsfjalli. Það á sér eðlilegar skýringar. Spáin miðast við útsýnisstaði í Geldingadölum sem liggja lægra og eru frekar í skjóli en mælirinn sem stendur efst á hæð, sem ýkjir vindinn á svæðinu.

Eldgosaspáin er í stöðugri þróun og við munum halda áfram að lagfæra eða breyta henni eftir þörfum.