ÚRKOMLÍTIÐ NOKKUÐ LENGI SUÐVESTANLANDS

ÚRKOMLÍTIÐ NOKKUÐ LENGI SUÐVESTANLANDS

Hún  vakti ekki sérstaka athygli síðasta setningin í yfirliti Veðurstofunnar fyrir veðráttuna í júní að úrkoma í Reykjavík sé það sem af er ári ekki nema 65% meðallags.  Það er því ekki furða að vatnsstaðan í mörgum vötnum er lág og rennsli flestra vatnsfalla verið lítið lengst af frá því í seint í vetur.   Hafnfirðingar reynda að beita hálfgerðum töfrabrögðum til að hækka vatnsborð Hvaleyrarvatn, en það er að hverfa í orðsins fyllstu merkingu.

Þeir eru orðnir 7 mánuðirnir í röð sem allir teljast frekar þurrir í Reykjavík. Allir minni en meðalúrkoman:

Des 2020:            74%

Jan 2021:              51%

Feb:                       54%

Mars:                    76%

Apríl:                     65%

Maí:                       74%

Júní:                       90%

 


Frá Hveleyrarvatni 6. júlí. - Vatnsborðið langt neðan bátabryggjunnar.

Í sjálfu sér engir verulegir þurrkar ef frá eru talin tvö skeið: Frá um 20. jan - 10. feb og hið seinn varði   frá því síðasst í apríl og fram yfir miðjan maí. Annars hefur rignt eitthvað annað slagið. Samtals 272 mm frá áramótum. En örsjaldan að  nokkru ráði. Þann  16. jan komu 15 mm og dagarnir 25. – 26. maí eru eiginlega þeir einu sem segja má að rignt hafi umtalsvert,  eða 25 mm.  Eftir þá rigningu varð allt iðjagrænt og trén laufguðust dagana á eftir.

Þó úrkoma hafi ekki beinlínis háð grasvexti er svörðurinn engu að síður þurr. Og ekki hefur beinlínis rignt það sem af er júlí.  1,5 mm og ekki spáð vætu fyrr en e.t.v. á mánudag (12. júlí) og þá 2 til 3 mm.  

En það merkilega er að úrkomu- og snjólítil veðrátta framan af ári er ekki svo óalgeng.  Fyrstu 6 mánuði ársins hefur á síðustu 70 árum úrkoma 6 sinnum verið minni í Reykjavík.  Síðast 2010.  Því má segja að tíðnin sé um 1 ár af hverjum 10.  Gefum okkur nú að úrkoma í júlí verði áfram um 65% meðalúrkomunnar sem e.t.v. er full glannalegt, jafnvel þó fyrri helmingurinn muni reynast mjög þurr. Þá væru úrkomuleysið komið í 5. sæti mælinga frá 1949.  Árin 1965, 1951 og 1979 væru þar í sérflokki. 

Það er nefnilega oft þannig að reynist fyrri hluti ársins þurr vegur síðari hluti þess það upp með meiri úrkomu en að jafnaði.  Þessi þrjú þurru ár sem nefnd eru hér að ofan áttu það sammerkt að mikið rigndi síðan um haustið, einkum í október. Það breytir því ekki að þau eru í hópi þeirra þurrustu í Reykjavík þegar gert var upp í árslok.


Vatnsstaða í Þórisvatni, 7. júlí 2021 - af vef Landsvirkjunar.

Haustrigningar er einmitt það sem lappað gæti helst upp á slaklega vatnsstöðu Þórisvatns skv. línuriti frá Landsvirkjun.  Þar er vatnsborðið þessa daga út úr öllu korti ef svo má að orði komast.  Jafnvel þó jöklaleysing sé farin ágætlega af stað, sér þess vart merki í Þórisvatni.  Á þeim stað skiptir grunnvatnsstaðan ekki síður máli.  Hún stjórnast einmitt af úrkomunni. Lítið snjóaði inni á hálendinu í vetur og líkt og suðvestanlands að þá hefur fremur lítið rignt í vor og framan af sumri.