VAR VEÐRIÐ UM HELGINA ÖFGAVEÐUR?

VAR VEÐRIÐ UM HELGINA ÖFGAVEÐUR?

Svarið er vissulega já, öll óveður þegar gefin er út rauð viðvörun (og spáin rætist!) eru á sinn hátt öfgaveður.  Bæði fátíð og hörð. Koma þannig mörgum eðlilega í opna skjöldu. Ekki síst snemma hausts þegar sumarið hefur ekki almennilega kvatt.

Einföld röksemdafærsla gæti verið þessi:

->Með loftslagsbreytingum aukast öfgar í veðri og veðurfari.

->Óveðrið 25. sept. var öfgaveður.

Þar af leiðir:

-> Óveðrið var af völdum loftslagsbreytinga.

Eða hvað??

Almennt þekkja menn vel og skilja tengsl á milli hlýnandi loftslags og öfga í veðri. Hitabylgjur eru snarpar og tíðari. Fellibyljir sækja aukin kraft í hlýrri sjó og tengsl eru klárlega á milli hlýnunar og aftaka úrkomu með auknum raka í lofthjúpnum. Hlýnun jarðar getur hugsanlega leitt af sér verri hvassviðri á norðlægum slóðum.  Þar er óvissan sem sé meiri og hún er það klárlega.

Sjálfur fullyrti ég það í viðtali á Bylgjunni (26.sept) að veðrið væri ekki tengt loftslagsbreytingum að nokkru marki, heldur orsakaðist af tilviljun í lofthjúpnum.  Myndun lægðarinnar og ferill hennar væri slembið ferli eins og tölfræðin myndi líta á málið. Þar sem nokkrir að mestu óháðir kraftar ná saman á þeim stað og þeirri stund og saman með vænum rakaskammti, nokkuð sem endurtekur sig á  nákvæmlega á sama hátt á kannski margra ára eða áratuga fresti.

Ef til vill er málið samt ekki alveg svo einfalt?

Skoðum þetta betur.

Í lofthjúpnum eru ýmis tengsl. Og við greinum þau ekki endilega með strjálum mælingum eða fjarkönnun. Veðurlíkönin ná þeim hins vegar betur því lofthjúpurinn er samhangandi „vökvi“ sem lýtur þekktum eðlisfræðilegum lögmálum. Þeim má  líkja má eftir og reikna með ákveðnum einföldunum í öflugum tölvum.  



Á laugardag kom fellibylurinn Fiona upp að ströndum Nova Scotia. Deila má um það hvort Fiona hafi enn verið skilgreind sem fellibylur eða afsprengi hans í formi djúprar lægðar.  Breytir því ekki að hvorki fyrr né síðar hafur mælst jafn lágur loftþrýstingur í Kanada og varð um helgin eða 931 hPa.  Ótrúlegt en satt að þá náði 7 daga spá ECMWF bæði ferðum lægðarinnar og styrk hennar eins og sjá má á spákortinu. Telst varla til frávika í langtímaspá þó hún hafi endað lítið eitt austar á Nova Scotia.

Þessi öflugi fellibylur og síðar lægða ruddi á undan sér hlýju og röku lofti til norðurs og norðaustur á Atlantshafið. Hingað náði það seint á laugardag þegar hiti á Dalatanga fór í 24 stig með snarpri V-átt. Sést vel á kortaröðinni hvernig þetta gerðist. Loft af hitabeltisuppruna styrkti hæðina suður af landinu jóka á þrýstispennuna og beindi líka viðbótar raka í veg fyrir hina lægðina sem var myndast norður af Íslandi.  Trausti Jónsson líkti þessu skemmtilega við boðhlaup þar sem Fiona bar keflið áfram til lægðarinnar norðar sem „þá tók á sprett“.

Ferðir gamalla fellibylja eða hitabeltislægða til norðurs yfir kaldari sjó eru engin nýlunda og heldur ekki í veg fyrir kaldara loft með bylgju í vestanvindabeltinu (sem líka er kölluð heimskautaröstin). Hins vegar var kraftur Fionu óvenjulegur þetta norðarlega og var kerfið var ekki farið að missa afl að marki þegar það mætti kaldu háloftadragi.  Það skýrist m.a. af hlýrri sjó en venjulega. Yfirborðssjórinn hefur verið tveimur stigum heitari í sumar á hafinu úti fyrir austurströnd Bandaríkjanna og enn meiri frávik sést.  Mjög hlýr sjór hefur því verið útbreiddari og náð norðar en í venjulega árferði.  Þessi sjávarhlýnun er beintengd loftslagshlýnun.

Niðurstaðan er því þessi:

Lægðin sem olli veðrinu hjá okkur var tilviljanakenndur atburður, en þar sem fellibylurinn fjarlægi var  lengur yfir hlýjum sjó, en áður hefði verið og því að líkindum  öflugri enn annars. Vegna þessa var ruðningur hitabeltslofts hingað norður eftir meiri en annars væri. Það skerpti á öllum hitaandstæðum og gerði mögulega lægðina einnig dýpri og krappari en hún hefði annars orðið.

Réttara væri því að segja að öfgafullt illviðri helgarinnar hafi mögulega verið ákafara en hefði orðið hér áður fyrr við svipaða atburðarás vegna hlýnunar jarðar!  Besta leiðin til að sannprófa er að endurreikna veðrið þessa daga þar sem Atlantshafið er kælt „með handafli“  niður í þann hitta eins hann var allajafna t.d. . frá 1970-2000.

ÓVEÐURSLÆGÐINNI VAR VEL SPÁÐ


Greining ECMWF hádeginu á sunnudag (kortið af Brunni VÍ að ofan) um það leyti sem vindur var mestur á Austfjörðum, sýnir 966 hPa nokkuð flatbotna lægð, en vestan og sunnan hennar þéttar þrýstilínur og þar með  mjög stríður vindur.  Spákort dagana á undan sýna glögglega að líkönin voru með lægðina nokkuð nákvæma staðsetta og vindstrenginn einnig  í keyrslum sem birtust á fimmtudagsmorgni.  Aðeins vantar upp á dýpt lægðarinnar, en í öllum aðalatriðum var þetta þá komið (séð eftirá !) Fram að því voru skýrar vísbendingar í þessa veru en reikningarnir nokkuð reikulir.