Veldur 5G innleiðingin því að veðurspár færast aftur til 1980?

Veldur 5G innleiðingin því að veðurspár færast aftur til 1980?

Í dag er 5G, fimmta kynslóðar farsímakerfi á allra vörum. Íslensku símafyrirtækin eru að byrja prófanir á tækninni og lofað er mun meiri hraða og bandbreidd en þekkist í 4G kerfinu.


En 5G innleiðingin veldur líka vandræðum. Bandaríska Veðurstofan (NOAA) og geimferðastofnunin (NASA) hafa lýst yfir áhyggjum af því að 5G sendar geti truflað gervihnetti sem mæli raka í lofthjúpi jarðarinnar. Í Bandaríkjunum hefur tíðninni 24 GHz verið úthlutað til fjarskiptafyrirtækja sem ætla að hasla sér völl á 5G markaðnum. Gervihnettirnir geta eingöngu séð raka í lofthjúpnum á tíðninni 23,8 GHz.


Tíðnirnar tvær eru nálægt hvor annarri og óttast NOAA og NASA að gervihnettirnir komi til með að sjá 5G sendingar á 24GHz tíðni sem raka, og eyðileggja með því mælingar hnattanna. Á næstunni er svo ráðgert að úthluta 5G tíðnunum 36 - 37 GHz sem notuð er til að mæla regn og snjókomu, 50,2 - 50,4 sem metur hita í lofthjúpnum og loks 80 - 90 GHz, en sú tíðni er notuð til að sjá ský.


Ef svo fer að rakamælingar gervihnattanna verði ónothæfar yfir stórum svæðum í N-Ameríku og víðar, eins og útlit er fyrir í dag, er talið að spágæði veðurspáa kæmu til með að lækka um 30% og verða álíka góð og þau voru um 1980. Þannig myndu spár um lægðabrautir versna og fólk hefði mun styttri tíma en í dag til að undirbúa sig undir óveður.


Á Íslandi búum við svo vel í þessu tilliti að landið er umkringt stórum hafsvæðum og strjábýlu landi, þannig að ólíklegt er að truflandi 5G sendar valdi vandræðum í skammtímaspám hér á landi. Það er þó ljóst að spár til lengri tíma en 3 - 4 daga yrðu verri þar sem þá færi að gæta áhrifa gagnavöntunarinnar yfir N-Ameríku.


Það eru fá fjarskiptafyrirtæki á Íslandi og minni eftirspurn eftir tíðnibilum fyrir fjarskiptanet. Þar af leiðandi ætti Póst- og fjarskiptastofnun að geta sleppt því að úthluta tíðni sem truflað gæti veðurgervihnetti við mælingar. Þannig getum við tryggt gæði skammtímaspáa yfir Íslandi.


Engu að síður verðum við að vona að farsæl lausn finnist í deilum NOAA og NASA við fjarskiptafyrirtækin vestanhafs svo veðurspágæði haldist góð og tryggi þar með öryggi íbúa um heim allan.