VERÐUR KALT FRAM AÐ SUMARDEGINUM FYRSTA?

VERÐUR KALT FRAM AÐ SUMARDEGINUM FYRSTA?

Ekki er hægt að segja annað en að langtímahorfurnar séu í svalara lagi!

1. Allar líkur eru á ríkjandi NV-átt í háloftunum næstu tvær vikurnar og kannski lengur. Þá berst til okkar loft sem ættað er af köldum svæðum vestan Grænlands.  Stundum ískalt, en á milli aðeins svalt.  Eins verða gjarnan til lægðir austur undir Grænlandsjökli þegar svona háttar til.  Þær berast þá yfir landið með snjómuggu og dýpka austur af okkur. Í kjölfarið síðan hvöss NA eða N-átt, skafrenningi og éljum. 

2. Fyrra kortið sýnir meðalástand hér næstu 10 dagana.  Kalt frávik loftmassahitans hér við land eru markverð skv. þessari nýjust 10 daga spá ECMWF af Brunni Veðurstofunnar.

3. Lægðarsveigja kemur líka fram í hálfoftstraumnum að jafnaði. Hún ein og sér er líka vísbending um tíða snjókomu norðanlands, en einnig vestantil.

4. Seinna kortið sýnir hitafrávik í 2 m hæð  í langtímaspá sem birt var á mánudagskvöld hjá ECMWF.  Annars vegar vikuna 12. til 18. apríl og hins vegar 19. - 25.  Kvarðan vantar en litirnir samsvara 1 til 2 stigum undir meðallagi.

5. Frost verður flesta dagana, en þó ekki alla a.m.k. ekki sunnanlands.  Í það minnsta verða næturfrost tíð og sums staðar flesta ef ekki alla daga fram að sumardeginum fyrsta sem vber upp á 22. apríl í ár.

6. 30-40% líkur eru taldar á því skv. nýjusu spám að staðan breytist um 20. og að mildara loft nái til landsins í tæka tíð fyrir 22.  Meiri líkur þó metnar á því að enn verði þá svalt og jafnvel kalt.

Það skyldi þó ekki vera komið að því að apríl verði raunverulega kaldur mánuður á landinu. Síðast gerðist það aldamótaárið 2000. (2006 þótti líka apríl fremur kaldur og rysjóttur).