VETRARSPÁIN DES 2020 -FEB2021
Í fyrra um þetta leyti gerðu flestar veðurlagsspár ráð fyrir mikilli vestanhringrás í háloftunum með þeirri afleiðingu að við Ísland yrði sérlega lágur meðalloftþrýstingur. Eða á mannamáli margar djúpar lægðir og tíð illviðri. Þetta gekk eftir eins og flestir muna.
Nú er meiri
breytileiki í þessum sömu veðurlagsspám.
Þennan veturinn er La Nina ástand í Kyrrahafinu, en þær slóðir voru í
hlutlausum gír í fyrra. Málið er að
Kyrrahafið í La Nina (mínus) eða El Nino (plús) eykur líkur á því sem kallast skyndihlýnun
í heiðhvolfinu (20-30 km hæð) á norðurhjaranum (e. Sudden Stratospheric Warming). Slík hlýnun
hátt uppi berst niður í veðrahvolfið (<10 km) á einni til tveimur
vikum. Þá veikist vestanvindurinn og í
stað lægða hér við land verður stundum viðvarandi háþrýstingur, oftast yfir
Grænlandi og þá með N-átt en stundum líka nær Skandinavíu með S- og SA-áttum.
Svona skyndihlýnun
birtist einmitt oft snögglega og án þess að veðurlíkönin sjái hana fyrr en örfáum
dögum áður. Engu að síður gerir Evrópska
reiknimiðstöðin ráð fyrir því að V-áttin í 10 hPa (30 km hæð) komi til með að
veikjast upp úr 25. nóvember. Slíkt
gerist ekki nema með skyndihlýnun uppi í heiðhvolfinu. Reyndar tölfræðilega rökrétt snammvetrar
þegar er La-Nina. GEFS spáin bandaríska sýnir hins vegar ekki
neitt í þessa veru enn sem komið er.
Desemberspá ECMWF
gefur einmitt til kynna veika hringrás og hæð hér suðvesturundan. Hlýrra en að jafnaði, ríkjandi S- og SV-áttir
og minni snjór en í meðalári.
Í janúar jafnar háloftahringrásin sig að nýju.
Greinilegt lágþrýstifrávik verður fyrir austan land saman með háþrýstifráviki
við Nýfundaland. Slíkt er ekki algengt en hefði í
för með sér ríkjandi N- og NV-átt og fremur köldu veðri í janúar. Svipuð hringrás
var uppi í desember 2014. Þýska og
Kanadíska veðurlagsspáin er á svipuðum nótum.
Sú breska með þrýstifrávikin nánast yfir landinu, en bandaríska, NCEP,
er á talsvert öðrum nótum.
Í febrúar er síðan spáð öflugri hringrás með
umhleypingum, lægðum og stormum hér við land.
Hins vegar miklu háþrýstifráviki suður af Alaska. Slíkt tengja menn einmitt mjög við La-Nina um
hávetur á norðurhveli.
En þetta er spá, ein af nokkrum og byggð á
bestu líkum.
*Spákortin eru
fengin úr sérvinnslu Simon Lee í háskólanum í Reading.