VEÐURSVEIFLAN ER EKKI ALLTAF EFTIR ALMANAKINU

VEÐURSVEIFLAN ER EKKI ALLTAF EFTIR ALMANAKINU

Í dag 29. ágúst er höfuðdagur. Hann hefur lengi verið tengdur veðurbreytingum. Sumir telja hann vera þann dag sem sumarið endar og haustið tekur við. Mikið er til í því,  breytingar verða oft á skipan veðurkerfa og loftstraumum á norðurhveli í kring um höfuðdag. Það á sér eðlilegar skýringar þegar kólna tekur á norðurhjaranum um þetta leyti, á sama tíma og á heittempruðu svæðum hér suður undan ríkir enn sumar og loftið gjarnan þrungið raka úr hafinu. V-áttin í háloftunum bætir í fyrstu haustlægðirnar sýna sig.


 

Breytingar eru greinilegar nú í kring um höfuðdag, en að þessu sinni í öfuga átt!

Gerist ekki í einum vettvangi, heldur frekar þróun sem má sjá frá því fyrir helgi (26.ág) og fram í byrjun september.

 

Þráláta kalda háloftadragið sem hér hefur lengi verið viðloðandi og er greinilegt á meðalkortinu síðustu 10 daga (19. til 28. ág),  því er rutt í burtu af hlýju lofti sem kemur úr suðvestri, Spá ECMWF næstu 10 daga sýnir greinilega aðra mynd. Frávikin á kortinu taka reyndar mið af september og því dálítið ýkt. En meðalþykktin fer frá því að vera 543dm í 552dm. Það eru mikil umskipti til hlýnunar loftins yfir landinu. Frekar í ætt við sumarkomuna frá miðjum júní til hlýrra daga í júlí.

 

Raka loftið í suðri berst hingað norður eftir (loksins segja sumir!) Með SA- og S-átt mun talsvert rigna sunnan- og vestanlands á þriðjudag og miðvikudag. Þá verður hnjúkaþeyr fyrir norðan og þar gæti hiti farið í 22 til 23 stig, t.d. á Akureyri. 



 

Í lok vikunnar verður svalara um tíma og jafnvel N-átt á fimmtudag,1. sept. Hún stendur stutt að þessu sinni, sé að marka langtímaspár. Því hlýrra loft nær aftur yfirhöndinni með háþrýstisvæði. Gangi þetta eftir gæti byrjun september borið góðan keim af sumri og alls ekki útilokað landsmenn fái þá eina bestu daga sumarsins. Líklega sólríkir og með hæglætisveðri.  Sólin er hins vegar tekin að lækka á lofti og meira þarf til en um mitt sumar að fá mjög hlýja daga. 

 

Síðasta spákortið, einnig frá ECMWF sýnir hve hæðarhryggurinn úr suðvestri og hér austur yfir landið, veldur niðurstreymi samfara langþráðri hæðarsveigju í vindasviðinu. Þar með þurrt loft yfir landinu á laugardag (3. sept). Gefur vonir um sól í sinni😊