UPPFÆRÐUR TJALDVEFUR

UPPFÆRÐUR TJALDVEFUR

Frá því 2020 höfum við boðið upp á upplýsingar um aðstæður á tjaldsvæðum til viðbótar við veðurspár fyrir tjaldsvæðin. Við höfum á hverju ári gert smávægilegar breytingar auk þess sem við höfum uppfært upplýsingar um tjaldstæðin.

Nú höfum við gert aðeins meiri breytingar. Vefurinn hefur verið nútímavæddur og virkni og útlit bætt. Helsta nýungin er að bætt hefur verið við gjaldskrá fyrir fjölmörg tjaldsvæði og nú er hægt að fylla út sitt fjölskyldumynstur og láta síðuna reikna verð fyrir næturgistingu fjölskyldunnar á yfir 100 tjaldsvæðum víðsvegar um landið.

Á myndinni má sjá verðútreikning fyrir 1 fullorðinn sem gistir í tjaldi og notar ekki rafmagn. Ódýrast er fyrir þann einstakling að gista á Kleifum, rétt utan við Kirkjubæjarklaustur. Í verðreiknivélinni er hægt að velja fjölda fullorðinna, fjölda og aldur barna hvort rafmagn sé notað eður ei og hvort gist sé í tjaldi, vagni eða húsbíl. Síðan reiknar svo heildarverðið fyrir gistinguna.

Eftir sem áður er hægt að velja ferðadagsetningar og láta raða tjaldsvæðunum eftir veðri. Þá birtist það tjaldsvæði þar se spáin er best efst á síðunni og tjaldsvæðin með verstu spána neðst. Þessi valmöguleiki hefur verið mjög vinsæll frá því við tókum hann í notkun árið 2020 og hafa tugþúsundir Íslendinga látið raða tjaldsvæðum í veðurröð á hverju sumri.

Ef ferðast á núna um helgina er besta spáin á Austurlandi, samkvæmt þessu er best fyrir sólþyrsta ferðamenn að tjalda á Egilsstöðum eða á Ásbrandsstöðum í Hofsárdal.

Á tjaldvefnum eru u.þ.b. 200 tjaldsvæði um land allt. Eftir því sem við best vitum er þetta víðtækasti gagnagrunnur um tjaldsvæði á landinu sem til er. Við vitum þó af nokkrum svæðum sem ekki eru inni á síðunni, en við munum bæta úr því á næstu dögum.

Þá vantar okkur ennþá verðskrá á um 80 tjaldsvæðum og einnig mættu myndirnar vera betri fyrir ákveðin svæði. Við skorum á rekstrarðila svæðanna, nú eða ferðalanga, að senda okkur upplýsingar um verð og þjónustu til þess að allir ferðamenn geti gengið að góðum upplýsingum um öll tjaldsvæðin.

Vefurinn verður þýddur yfir á ensku á næstu dögum og þá munu erlendir ferðalangar einnig geta notið góðs af upplýsingunum.

Hægt er að bera vefinn augum með því að smella hér. Það er ekki seinna vænna að fara að undirbúa sig fyrir ferðalög sumarsins þar sem útlit er fyrir ákaflega gott veður í næstu viku.